Enski boltinn

Arsenal skoðar markaðinn vegna meiðsla Havertz

Sindri Sverrisson skrifar
Kai Havertz verður ekki með Arsenal á næstunni.
Kai Havertz verður ekki með Arsenal á næstunni. Getty/David Price

Arsenal verður án þýska sóknarmannsins Kai Havertz á næstunni vegna hnémeiðsla. Félagið er núna í leit að nýjum leikmanni áður en félagaskiptaglugginn lokast 1. september.

Frá þessu greinir blaðamaðurinn virti David Ornstein hjá The Athletic. Hann segir að enn sé verið að greina nákvæmlega meiðsli Þjóðverjans og ekki liggi fyrir hve lengi hann verði frá keppni.

Havertz kom inn á sem varamaður fyrir Viktor Gyökeres þegar hálftími var eftir af 1-0 sigrinum á Manchester United í 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn.

Ef Havertz verður lengi frá gæti pressan orðið fullmikil á Gyökeres sem ekki tókst að heilla menn í frumraun sinni eftir komuna frá Portúgal í sumar, og samkvæmt The Athletic stefna Arsenal-menn nú á að finna frekari styrkingu í framlínu sína.

Auk Havertz voru þeir Ben White og Christian Nörgaard ekki með á æfingu Arsenal í dag en ekki liggur fyrir hver staðan á þeim er. White lék sjötíu mínútur gegn United en fór svo meiddur af velli og kom Jurrien Timber inn á í hans stað. Nörgaard bíður hins vegar eftir sínum fyrsta leik en Mikel Arteta sagði eftir sigurinn á United að Daninn hefði fengið högg sem hefði haldið honum frá keppni.

Arsenal spilar fyrsta heimaleik sinn á tímabilinu á laugardaginn þegar liðið tekur á móti nýliðum Leeds.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×