Enski boltinn

Mynd af Jota það síðasta sem leik­menn Liverpool sjá

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmaður Liverpool með Diogo Jota fána á leik liðsins á undirbúningstímabilinu.
Stuðningsmaður Liverpool með Diogo Jota fána á leik liðsins á undirbúningstímabilinu. EPA/PETER POWELL .

Liverpool hefur sett upp nýja mynd í búningsklefa Liverpool á Anfield leikvanginum.

Myndin er af Portúgalanum Diogo Jota fagna með Englandsbikarinn eftir sinn síðasta leik fyrir félagið.

Jota lést ásamt yngri bróður sínum Andre Silva í bílslysi á Spáni 3. júlí síðastliðinn. Hann var á leiðinni til móts við liðsfélaga sína í Liverpool þar sem undirbúningstímabilið var að hefjast.

Jota var aðeins 28 ára gamall og nýbúinn að gifta sig. Hann lét eftir sig eiginkonuna Rute Cardoso og þrjú ung börn.

Liverpool hefur heiðrað minningu Jota með margskonar hætti. Félagið tók treyjunúmerið tuttugu úr umferð en Jota verður sá síðasti til að klæðast treyju tuttugu hjá Liverpool.

Félagið ákvað einnig að greiða fjölskyldu Jota upp þau tvö ár sem hann átti eftir af samningi sínum við félagið.

Stuðningsmenn Liverpool hafa búið til risa veggmynd af Jota fyrir utan Anfield þar sem má sjá stóra mynd af honum og í kringum hann hafa ótal aðilar skrifað kveðju til Portúgalans.

Nú síðast ákvað Liverpool að setja upp þessa fyrrnefndu mynd í búningsklefa Liverpool. Myndin af Jota verður því það síðasta sem leikmenn Liverpool sjá þegar þeir yfirgefa klefann fyrir heimaleiki sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×