Lífið

Þegar Jónas var jarð­settur hundrað árum eftir and­látið

Jón Þór Stefánsson skrifar
Jónas frá Hriflu og Ólafur Thors, þáverandi forsætisráðherra, voru fremstu kistuberar Jónasar Hallgrímssonar.
Jónas frá Hriflu og Ólafur Thors, þáverandi forsætisráðherra, voru fremstu kistuberar Jónasar Hallgrímssonar.

Myndefni eftir Vigfús Sigurgeirsson sem sýnir meðal annars frá útför Jónasar Hallgrímssonar hefur verið birt á vef Kvikmyndasafnsins.

Umrædd útför Jónasar fór fram löngu eftir andlát hans. Hann lést þann 26. maí 1845, fimm dögum eftir að hann féll í stigagangi á heimili sínu í Kaupmannahöfn. Upphaflega var hann jarðsettur í Assisstenskirkjugarðinum í Kaupmannahöfn.

Leifar hans voru þó fluttar þaðan og til Íslands rúmum hundrað árum síðar, árið 1946. Útför hans fór síðan fram þann16. nóvember þetta sama ár. Hann var lagður til hinstu hvílu í Þjóðargrafreitnum við Þingvallakirkju, við hlið Einars Benediktssonar.

Mörg íslensk fyrirmenni voru í þessari jarðarför.

„Ólafur Thors, forsætisráðherra, og Jónas Jónsson frá Hriflu þingmaður Framsóknarflokksins, fremstu líkmenn en auk þeirra: Jón Pálmason, forseti sameinaðs Alþingis, Þorsteinn Þorsteinsson, forseti efri deildar Alþingis, Barði Guðmundsson, forseti neðri deildar Alþingis, Jörundur Brynjólfsson, þingmaður Framsóknarflokksins, Sigurður Kristjánsson, formaður þingvallanefndar og Bernharð Stefánsson, þingmaður Framsóknarflokksins. Þá taka við kistunni rithöfundar og náttúrufræðingar: Guðmundur Hagalín, Guðmundur Daníelsson, Jakob Thorarensen, Friðrik Brekkan, Árni Friðriksson, Sigurður Pjetursson, Ingólfur Davíðsson og Þór Guðjónsson. Eftir þeim ganga biskup Íslands séra Sigurgeir Sigurðsson, séra Hálfdán Helgason og séra Bjarni Jónsson, vígslubiskup,“ segir á vef Kvikmyndasafnsins.

Fyrstu forsetar lýðveldisins myndaðir

Fleira merkilegt myndefni eftir Vigfús Sigurgeirsson hefur nú verið birt á vefnum Ísland á filmu. Samkvæmt tilkynningu er um að ræða mikið af áður óséðu efni.

Vigfús var einn af helstu frumkvöðlum íslenskrar kvikmyndagerðar. Gunnar Tómas Kristófersson, kvikmyndafræðingur, skrifaði grein um Vigfús í tímaritið Sögu í fyrra. Þar fjallaði hann um hvernig Vigfús mótaði sýn Íslendinga á nýstofnað lýðveldið með myndum af forsetanum sem þjóðartákni, oft í samhengi við fánann, landslag, þjóðlegan búning og almenning.

Þarna má sjá myndefni frá fyrstu forsetum Íslands. Sýnt er frá opinberum heimsóknum fyrstu tveggja forseta Íslands, Sveins Björnssonar og Ásgeirs Ásgeirssonar, víða um land.

Meðal annars má sjá Ásgeir við veiðar af varðskipinu Þór og þegar ferð Sveins tafðist vegna sauðfjárreksturs.

Þá má líka sjá myndefni frá jarðsetningu Sveins Hann er eini íslenski forsetinn sem látist hefur í embætti. 

Hann lést 25. janúar 1952 og fór jarðarförin fram rúmri viku síðar, þann 2. febrúar. Séra Bjarni Jónsson, dómkirkjuprestur, jarðsöng hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.