Lífið

Tvö mara­þon eftir af sex: Úr þoku í sól, misörlátir ferða­menn og há­lendið kvatt

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Það gengur á ýmsu þegar maður hleypur sex maraþon yfir hálendið.
Það gengur á ýmsu þegar maður hleypur sex maraþon yfir hálendið.

Jakkafataklæddi hlaupahópurinn HHHC Boss, sem hleypur sex maraþon á sex dögum yfir Kjöl, á tvö hlaup eftir. Hópurinn hefur safnað fimm milljónum af tíu milljón króna markmið fyrir Kraft. Hvert hlaup tileinka þeir manneskju sem hefur greinst með krabbamein.

Hópurinn hljóp fimm maraþon á fimm dögum frá Akureyri til Reykjavíkur árið 2023 og endurtekur nú leikinn nema hlaupa í þetta sinn yfir Kjöl. 

Hópurinn safnar pening fyrir Kraft, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein, en eftir að hafa farið af stað með söfnunina greindist einn úr hópnum með krabbamein og málefnið stendur þeim því afar nærri.

Fréttamaður ræddi við hópinn, sem samanstendur af 21 karlmanni á besta aldri, í kvöldfréttum Sýnar áður en þeir lögðu af stað.

Hlaupið fyrir Anítu yfir Öxnadalsheiði

Hópurinn lagði af stað í rigningunni í miðbæ Akureyrar á mánudagsmorgun og voru komnir yfir Öxnadalsheiði um tvöleytið sama dag.

Fyrsti dagurinn gekk vel.

Fyrsta maraþonið tileinkuðu þeir Anítu Sól Jónsdóttur, sem greindist fyrst með brjóstakrabbamein 27 ára árið 2022 og svo aftur núna, þrjátíu ára.

„Framtíðin er ennþá svolítið óljós, en ég tek bara einn dag í einu og hef gaman á meðan,“ segir Aníta Sól um baráttuna við brjóstakrabbamein.

„Allt gekk að óskum og allir fóru þeir maraþon,“ sagði hópurinn eftir fyrsta daginn. Menn þurftu þó að huga að blöðrum, sárum og strengjum í kvöld.

Öxnadalsheiðin tekin.

Horfa má á brot úr hlaupum hópsins yfir Kjöl í myndbandinu hér að neðan: 

„Örlítið frávik,“ malbiksævintýri, ferðamaður með þússara

Á þriðjudag byrjaði hópurinn í Skagafirði en framdi „örlítið frávik“ eins og þeir orða það og beygðu til vinstri inn á Kjalveg. 

„Það verður ævintýri fyrir HHHC'ara sem eeeelska malbik!“ sögðu þeir um annan daginn.

Hlauparar þurftu að hengja boli og jakka til þerris eftir þriðjudagshlaupið, þar á meðal var Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar.
Mennirnir voru mishressir þegar ljósmyndari náði af þeim mynd.

Hlaup þriðjudagsins tileinkuðu þeir Íunni Eir Gunnarsdóttur, sem greindist 33 ára með eggjastokkakrabbamein sem heitir Endometrioid. Krabbameinsgreiningin sjálf reyndi mikið á en stærsta áfallið fyrir Ínu var að uppgötva að hún gæti ekki gengið með fleiri börn.

„Hugarfarið hefur komið manni ótrúlega langt en það mikilvægasta er stuðningur minna nánustu sem hefur komið mér í gegnum þetta. Í dag líður mér mun betur. Þetta er allt í rétta átt og kemur allt saman með tímanum,“ segir Íunn Eir.

Á öðrum degi mætti hópurinn ferðamanni sem hljóp á eftir þeim til að styrkja Kraft um tvo fimmhundruðkalla

Ferðamaðurinn knái færði mönnunum tvo 500-kalla.

Allir kláruðu maraþon þriðjudagsins þó strengirnir væru meiri, sárin fleiri og blöðrurnar stærri. Að hlaupadegi loknum slökuðu mennirnir á og borðuðu í Áfangaskála við Kjalveg.

Úr þoku og kulda í sól og hita

Hópurinn færði sig yfir í brún jakkaföt í gær og byrjaði í þoku á Kjalvegi.

Dagurinn byrjaði í þoku en svo birti til.

„Byrjuðum í fimm gráðu hita og þoku og kláruðum í tuttugu gráðum og sól í Hvítárnesi. Í dag hlupum við fyrir Óla Eðvald Bjarnason, ungan mann sem tókst á við mjög erfitt verkefni aðeins 25 ára gamall og sigraðist á eitilfrumukrabbameini,“ sagði hópurinn um maraþon miðvikudagsins.

„Að fara í gegnum svona ferli tekur á bæði líkamlega og andlega. Það reynir á þolrifin, bæði þín eigin og þeirra sem standa þér næst. En það kennir manni líka svo margt. Ég fann hvernig tengsl mín við fjölskyldu og vini urðu dýpri og sterkari,“ segir Óli Eðvald Bjarnason.

„Með hans sögu í huga tókumst við á við Kjalveg. Margir eru orðnir lúnir og lemstraðir en áfram gakk.“

Aftur á malbik

Hópurinn lagði að stað frá Hvítárnesi í morgun og hljóp niður í Minni Borg. Þeir sneru aftur á malbikið sem þeir elska svo. Á leiðinni stoppuðu þeir við Gullfoss og hittu ferðamann á mótorhjóli sem styrkti þá um 200 evrur.

Tvö hundruð evru styrkur frá vindbörnum mótorhjólamanni.

Hlaup dagsins í dag tileinkaði hópurinn Eyrúnu Ösp Ottósdóttur sem var þrítug þegar hún greindist með leghálskrabbamein, verslunarmannahelgina 2023. Hún var þá nýlega búin að ganga í gegnum fæðingu yngstu dóttur þeirra hjóna.

„Það sem ég óttaðist mest var að deyja frá börnunum mínum þremur - það heltók hugsanir mínar svolítið þarna fyrst,“ segir Eyrún Ösp um krabbameinsgreininguna.

„Það að greinast með krabbamein er auðvitað risastórt verkefni og ég er enn að vinna mig út úr því. Ég er ófrjó eftir geislameðferðina en ég er ofboðslega þakklát að eiga mín þrjú börn,“ sagði Eyrún um ferlið.

Hlaupahópurinn kvaddi síðan hálendið síðdegis í dag og stefnir hraðbyri í átt að borginni. Tvö hlaup, samanlagt 84 kílómetrar, bíða þeirra.

Hópurinn við Gullfoss keikir og hressir.

Tengdar fréttir

Hlaupa sex maraþon á jafnmörgum dögum í jakkafötum

Jakkafataklæddur hlaupahópur ætlar að hlaupa sex maraþon á sex dögum yfir Kjöl í næstu viku til styrktar Krafti. Eftir að farið var af stað með söfnunina greindist einn úr hópnum með krabbamein og málefnið stendur þeim því afar nærri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.