Lífið

Þunga­rokk­stjarna lést í mótor­hjóla­slysi

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Brent Hinds á tónleikum í Brasilíu 2015. Sama ár spilaði hann á Íslandi.
Brent Hinds á tónleikum í Brasilíu 2015. Sama ár spilaði hann á Íslandi. EPA

Fyrrverandi gítarleikari og söngvari í þungarokkshljómsveitinni Mastodon lést í mótorhjólaslysi í Atlanta í Bandaríkjunum í gærkvöldi. Mastodon er gífurlega vinsæl hljómsveit sem hefur starfað frá 2000 og hefur tvisvar spilað á Íslandi, árið 2003 og aftur 2015. 

Lögregluyfirvöld greindu frá því að Hinds hafi látist á miðvikudagskvöldi þegar hann ók Harley Davidson mótorhjóli á BMW jeppling á gatnamótum um hálftíma fyrir miðnætti.

Hinds stofnaði Mastodon ásamt félögum sínum Troy Sanders, Bill Kelliher og Brann Dailor, og spilaði í hljómsveitinni þar til snemma á þessu ári.

Fyrr á þessu ári var greint frá því að Hinds hefði yfirgefið hljómsveitina í sátt við aðra meðlimi, en fyrir örfáum vikum greindi Hinds frá því að hann hefði verið ósáttur við að hafa verið látinn fara og kallaði aðra meðlimi hljómsveitarinnar illum nöfnum.

Í færslu hljómsveitarinnar á Instagram þar sem greint er frá andlátinu segir að hljómsveitin sé í öngum sínum.

„Við erum harmi slegnir. Í gærkvöldi lést Brent Hinds eftir skelfilegt mótorhjólaslys. Við erum miður okkar, og í áfalli yfir því að þessi skapandi maður sem við höfum eytt svo mörgum stundum með, sigrað með, og náð áföngum með sé farinn frá okkur.“

„Hugur okkar er hjá fjölskyldu hans, vinum og aðdáendum. Við biðjum ykkur öll að virða friðhelgi okkar og hans á þessum erfiðu tímum.“

Mastodon voru aðalnúmerið á hátíðinni Rokkjötnum árið 2015 í Valshöllinni, en áður höfðu þeir komið hingað snemma á ferlinum árið 2003.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.