Handbolti

Gat ekki skammað frænda því hann þurfti að fara upp á spítala

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Geir Guðmundsson og Guðmundur Hólmar eiga margar góðar sögur eftir tæplega tveggja áratuga handboltaferil.
Geir Guðmundsson og Guðmundur Hólmar eiga margar góðar sögur eftir tæplega tveggja áratuga handboltaferil. vísir / bjarni

Frændurnir Geir Guðmundsson og Guðmundur Hólmar Helgason ákváðu í sameiningu í sumar að leggja handboltaskóna á hilluna, eftir að hafa fylgst að og verið liðsfélagar nánast allan ferilinn. Þeir hafa lent í ýmsum ævintýrum og einna eftirminnilegust er landsliðsferð til Noregs.

Frændurnir ræddu ferilinn í viðtali við Sýn fyrir stuttu og sögðu skemmtilegar sögur.

Guðmundur Hólmar í leik með landsliðinu. Vísir/EPA

„Ég man eftir landsliðsferð í Noregi“ segir Geir og rifjar upp.

„Það er brotið harkalega á frænda og hann liggur eftir óvígur, fer meiddur út af og ég náttúrulega sturlast við að sjá það. Tek næsta gæja og hakka hann alveg, fæ beint rautt og fer sjálfur út af.

Svo eftir leik þá ætlaði ég skamma fíflið fyrir að hafa espað mig svona upp í þetta. Þá var hann bara kominn í hálskraga og við þurftum að fara upp á spítalann í Osló. Bölvað vesen og ég þurfti að draga skammirnar til baka.“

Guðmundur slapp því við skammir í Noregi en líkt og Geir gerði þar hefur Guðmundur stundum þurft að bakka frænda sinn upp þegar til kastanna kom.

„Já hann er skaphundur, eins og hann á kyn til“ segir Guðmundur og Geir glottir við.

„Neinei, hann er fljótur upp en jafn fljótur niður. Aldrei verið neitt ofboðslega grófur eða vondur leikmaður. Þannig að ég hef af og til þurft að ybba mig, en ég er eins. Aðallega að gelta, minna að bíta.“

Viðtalið við frændurna má sjá í spilaranum að ofan. Sagan af landsliðferðinni til Noregs er sögð eftir um sjö mínútur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×