Erlent

Per­sónu­legar og á­takan­legar lýsingar í ævi­sögu Giuffre

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Giuffre var 41 árs þegar hún svipti sig lífi fyrr á árinu.
Giuffre var 41 árs þegar hún svipti sig lífi fyrr á árinu. Getty

Útgefandi ævisögu Virginiu Giuffre, sem hún lauk við áður en hún svipti sig lífi fyrr á árinu, segir bókina innihalda persónulegar og átakanlegar lýsingar á samskiptum Giuffre við Jeffrey Epstein, Ghislaine Maxwell og Andrés Bretaprins.

Giuffre, sem skrifaði bókina með rithöfundinum og blaðamanninum Amy Wallace, komst í sviðsljósið þegar hún sakaði Epstein og Maxwell um kynferðisbrot og mansal. Þá ásakaði hún Andrés um að hafa nauðgað sér þegar hún var sautján ára gömul.

Andrés samdi sig frá málinu og er talinn hafa greitt Giuffre um það bil tvo milljarða króna.

Stækkuð mynd af Andrési og Giuffre. Getgátur eru uppi um að Epstein hafi tekið myndina.

Útgefandinn Alfred A Knopf hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir meðal annars að bókin, Nobody´s Girl: A Memoir of Surviving Abuse and Fighting Justice, muni koma út 21. október næstkomandi.

Með yfirlýsingunni fylgdi tölvupóstur frá Giuffre, sem hún sendi útgefandanum 25 dögum áður en hún lést. Þar segir hún afar mikilvægt að bókin komi út, jafnvel þótt hún verði fallin frá. Segir hún afar mikilvægt að sannleikurinn komi upp á yfirborðið og að ljósi sé varpað á vankanta kerfisins.

Todd Doughty, talsmaður Knopf, vildi ekki tjá sig um það hvaða einstaklingar kæmu fyrir í bókinni en staðfesti að Giuffre hefði ekki sakað Donald Trump Bandaríkjaforseta um neitt misjafnt.

Í þessari grein er fjallað um sjálfsvíg. Fólki með sjálfsvígshugsanir er bent á upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið heilsuvera.is, Hjálparsíma Rauða krossins s.1717, á netspjallið 1717.is og á Píeta símann s.552-2218. Þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi er bent á stuðning í Sorgarmiðstöð s. 551-4141, upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið heilsuvera.is og á Píeta símann s.552-2218.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×