Veður

Blæs hressi­lega af austri á landinu

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti á landinu verður frá ellefu til 21 stig, hlýjast norðan- og vestantil.
Hiti á landinu verður frá ellefu til 21 stig, hlýjast norðan- og vestantil. Vísir/Arnar

Leifar fellibylsins Erin er nú um 450 kílómetra suður af Vestmannaeyjum og er þrýstingur í miðju hennar 962 millibör, sem er mjög djúpt fyrir árstímann. Það mun enda blása hressilega af austri á landinu í dag.

Veðurstofan gerir ráð fyrir allhvössum eða hvössum vindi sunnanlands og hvassast allra syðst, og víða strekkingi í öðrum landshlutum. Gul viðvörun tekur gildi á Suðurlandi klukkan 12 og verður í gildi til klukkan 20 í kvöld.

„Súld og rigning verður viðloðandi um landið sunnan- og austanvert. Norðan- og vestanlands verður hins vegar lítil úrkoma og jafnframt nokkuð hlýtt, kringum 20 stig þegar best lætur, enda loftið yfir landinu hlýtt og að hluta til ættað innan úr fellibylnum.

Á morgun gera spár ráð fyrir að títtnefnd lægð verði áfram fyrir sunnan landið, en grynnist hratt og vindur gefur því eftir. Súld ennþá á suðaustan- og austanverðu landinu. Í öðrum landshlutum skýjað með köflum með möguleika á smávegis skúrum hér og þar og áfram hlýtt,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag: Austan og suðaustan 5-13 m/s. Skýjað með köflum og stöku skúrir norðan- og vestanlands, en súld eða rigning við suðaustur- og austurströndina. Hægari vindur seinnipartinn. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast á Norður- og Vesturlandi.

Á fimmtudag: Austlæg eða breytileg átt 3-8. Bjart með köflum, en líkur á skúrum síðdegis. Hiti 12 til 18 stig. Þokuloft við austurströndina og svalara.

Á föstudag og laugardag: Norðaustlæg átt. Súld eða rigning af og til norðan- og austanlands. Skýjað með köflum og stöku síðdegisskúrir suðvestantil. Hiti 9 til 17 stig, hlýjast á Suðvesturlandi.

Á sunnudag: Norðanátt með vætu á norðurhelmingi landsins og hita 7 til 11 stig. Bjart með köflum sunnantil með stöku skúrum síðdegis og hita að 17 stigum.

Á mánudag: Fremur hæg breytileg átt, skýjað að mestu og dálítil væta í flestum landshlutum. Hiti 8 til 15 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×