Enski boltinn

Palace gerir hosur sínar grænar fyrir Akanji

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Manuel Akanji hefur leikið 136 leiki fyrir Manchester City og skorað fimm mörk.
Manuel Akanji hefur leikið 136 leiki fyrir Manchester City og skorað fimm mörk. epa/DAVID CLIFF

Bikarmeistarar Crystal Palace hafa áhuga á að fá svissneska landsliðsvarnarmanninn Manuel Akanji frá Manchester City.

Talið er að City vilji fá þrjátíu milljónir punda fyrir hinn þrítuga Akanji. Hann tók ekki þátt í fyrstu tveimur leikjum Manchester-liðsins á tímabilinu.

Fyrirliði Palace, miðvörðurinn Marc Guéhi, er á lokaári samnings síns við félagið og hefur verið orðaður við brotför frá því. Palace þarf því sérstaklega á miðverði að halda ef Guéhi hverfur á braut og jafnvel þótt hann verði áfram myndi knattspyrnustjórinn Oliver Glasner eflaust ekki slá hendinni upp á móti auka manni í vörnina.

City keypti Akanji frá Borussia Dortmund fyrir þremur árum. Á sínu fyrsta tímabili með liðinu vann hann þrennuna.

Pep Guardiola, stjóri City, hefur sagst vera með of stóran leikmannahóp og vill eflaust grisja hann áður en félagaskiptaglugganum verður lokað. Auk Akanjis hefur markvörðurinn Ederson verið orðaður við brottför frá City.

Akanji hefur leikið 71 leik fyrir svissneska landsliðið og skorað þrjú mörk.

Palace er með tvö stig eftir fyrstu tvær umferðirnar í ensku úrvalsdeildinni en City þrjú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×