Handbolti

Strákarnir hans Guð­jóns Vals byrja tíma­bilið vel

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson er þjálfari Gummersbach í þýsku deildinni.
Guðjón Valur Sigurðsson er þjálfari Gummersbach í þýsku deildinni. Getty/Tom Weller

Íslensku leikmennirnir í Gummersbach voru flottir í fyrri hálfleik í kvöld í opnunarleik þýsku deildarinnar.

Gummersbach vann þá þriggja marka útisigur á Hannover-Burgdorf, 29-26, eftir að hafa verið fjórum mörkum yfir í hálfleik, 15-11.

Gummersbach var með forystuna allan leikinn en þurfti aðeins að verja sigurinn á lokakafla leiksins.

Teitur Örn Einarsson og Elliði Snær Viðarsson byrjuðu leikinn frábærlega og voru saman með sjö mörk eftir fyrri hálfleikinn.

Elliði nýtti öll þrjú skotin sín og Teitur skoraði úr fjórum af fimm skotum sínum.

Þeim tókst þó hvorugum að bæta við marki í seinni hálfleiknum.

Hollendingurinn Kay Smits var markahæstur með sex mörk en Julian Köster skoraði fimm mörk. Smits var líka með fjórar stoðsendingar og kom því að tíu mörkum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×