Upp­gjörið: FH - Veszprém 22-32 | Takk Aron

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Aron Pálmarsson þakkar fyrir sig.
Aron Pálmarsson þakkar fyrir sig. Vísir/Anton Brink

Veszprém vann í kvöld tíu marka sigur er liðið heimsótti FH í vináttuleik í Kaplakrika í kvöld, 22-32. Þrátt fyrir að um vináttuleik væri að ræða hafði hann gríðarlega þýðingu, því þetta var kveðjuleikur Arons Pálmarssonar, eins besta handboltamanns Íslands frá upphafi.

FH-ingar byrjuðu vel í kvöld og skoruðu fyrstu tvö mörk leiksins. Ungversku gestirnir voru hins vegar fljótir að jafna metin áður en maður kvöldsins, Aron Pálmarsson, skoraði þriðja mark FH-inga og þakið ætlaði af Kaplakrika.

Það fór hins vegar að draga í sundur með liðunum um miðbik fyrri hálfleiks eftir að FH-ingar höfðu gert vel í að hanga í stórliði Veszprém. Munurinn varð þó aldrei meiri en fjögur mörk í fyrri hálfleik og gestirnir leiddu 10-14 þegar hálfleiksflautið gall og liðin héldu til búningsherbergja.

Aron skoraði eitt mark fyrir FH.Vísir/Anton Brink

Stuttur samningur og heiðursskipting

Í síðari hálfleik dró svo enn frakar í sundur milli liðanna. Aron Pálmarsson skipti um lið í stund og lék í um sjö mínútur fyrir Veszprém. Afar stuttur samningur það. Hann fékk gott færi til að skora eitt í viðbót, en skotið í stöngina.

Þegar um tvær mínútur voru eftir af leiknum var svo gert hlé og Aron fékk heiðursskiptingu. Hver einasti einstaklingur sem það gat stóð á lappir og klappaði vel og innilega fyrir Aroni sem þakkaði vel fyrir sig. Tilfinningaþrungin stund þegar þessi magnaði handboltamaður yfirgaf sviðið.

Gestirnir í Veszprém unnu að lokum tíu marka sigur, 22-32, en leikurinn sjálfur eða úrslit hans var þó ekki ástæðan fyrir fullum Kaplakrika í kvöld. Aron tók við blómum og krönsum í leikslok og ætli sé ekki óhætt að segja að þetta hafi verið svo gott sem fullkomið kvöld til að kveðja goðsögnina Aron Pálmarsson.

Aron hefur kvatt handbotasviðið.Vísir/Anton Brink

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira