Enski boltinn

„Stundum hata ég leik­menn mína“

Sindri Sverrisson skrifar
Það hefur gengið afleitlega hjá Ruben Amorim í ensku úrvalsdeildinni frá því að hann tók við Manchester United. Fall úr deildabikarnum í vikunni, gegn D-deildarliði Grimsby, hjálpaði svo ekki til.
Það hefur gengið afleitlega hjá Ruben Amorim í ensku úrvalsdeildinni frá því að hann tók við Manchester United. Fall úr deildabikarnum í vikunni, gegn D-deildarliði Grimsby, hjálpaði svo ekki til. Getty/Mike Hewitt

Rúben Amorim, knattspyrnustjóri Manchester United, segist ekki ætla að breyta því hve tilfinningasamur hann sé, þar á meðal í viðtölum. Stundum hati hann eigin leikmenn og stundum elski hann þá.

Amorim sat fyrir svörum á blaðamannafundi í dag og að sjálfsögðu snerust margar af spurningunum um viðtalið sem hann fór í eftir tapið gegn Grimsby í enska deildabikarnum í vikunni. 

Af því viðtali að dæma mátti allt eins búast við því að Portúgalinn ætlaði sér að segja starfi sínu lausu, svo mikið virtist vonleysið og vonbrigðin yfir spilamennsku leikmanna.

Portúgalinn segir kosti og galla fylgja því að vera eins tilfinningasamur og hann sé.

„Stundum langar mig að hætta og stundum vil ég vera hérna næstu tuttugu árin. Stundum elska ég að vera með leikmönnum mínum og stundum vil ég ekki vera með þeim. Ég þarf að bæta þetta, það verður erfitt, en núna einbeiti ég mér að næsta leik,“ sagði Amorim en United mætir næst Burnley á morgun klukkan 14.

Hann útskýrði nánar hvers vegna hann talaði eins og hann gerði eftir tapið gegn Grimsby:

„Á þessu augnabliki var ég í miklu uppnámi og mjög vonsvikinn því mér leið á undirbúningstímabilinu eins og að við værum að verða betri, stöðugri í okkar leik. Við spiluðum illa í þrjátíu mínútur gegn Fulham og eftir svona frammistöðu gegn Grimsby þá var ég vonsvikinn. En núna er komið að nýjum leik og ég einbeiti mér að honum.

Ég get sagt ykkur það í fullri hreinskilni að í hvert skipti sem við höfum eða munum tapa svona í framtíðinni, þá verð ég svona. Ég ætla að segja að stundum hata ég leikmennina mína, stundum elska ég þá, stundum vil ég verja þá. Þetta er mín leið til að gera hlutina og ég verð svona. Og ég fann fyrir því að á þessari stundu hvað ég var argur og pirraður. Og ég veit að það eru margir reynslumiklir einstaklingar sem tala um hvernig ég ætti að koma fram við fjölmiðla, að vera stöðugri, að vera rólegri. Ég ætla ekki að vera þannig,“ sagði Amorim.

Hann staðfesti einnig að ekki stæði til að láta miðjumanninn Kobbie Mainoo, sem verið hefur aftarlega í goggunarröðinni hjá Portúgalanum, fara frá United. „Ég vil að Kobbie sé hérna. Hann þarf að berjast fyrir sínu sæti og við þurfum Kobbie. Það er því ekki að fara að breytast.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×