Innlent

Biskup lætur Rúv heyra það vegna um­ræðunnar í gær

Árni Sæberg skrifar
Guðrún biskup er ekki ánægð með að Snorri hafi fengið að viðra skoðanir sínar um trans fólk á Rúv í gær.
Guðrún biskup er ekki ánægð með að Snorri hafi fengið að viðra skoðanir sínar um trans fólk á Rúv í gær. Vísir

Biskup Íslands segir skjóta skökku við að Ríkisútvarpið hafi lagt áherslu á að ræða skoðanir fólks á tilvist trans fólks, á setningardegi forvarna gegn sjálfsvígum.

Gulur september hófst í gær en það er samvinnuverkefni stofnana og félagasamtaka sem vinna saman að geðrækt og sjálfsvígsforvörnum. Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, stakk niður penna hér á Vísi til þess að vekja athygli á verkefninu. 

Vert er að taka fram að í þessari grein er fjallað um sjálfsvíg. Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Píeta samtökin. Síminn hjá Pieta-samtökunum er jafnframt opinn allan sólarhringinn og er 552-2218 og vefsíðan pieta.is.

Mun fleiri látast í sjálfsvígum en í umferðinni

Biskup segir að á hverju ári deyi um fjörutíu manns í sjálfsvígum hér á landi, sem séu til dæmis mun fleiri en í bílslysum. Íslendingar séu stöðugt að auka öryggið í umferðinni til þess að koma í veg fyrir slys og andlát en því miður hafi okkur sem þjóð mistekist að nálgast öryggi geðheilbrigðis á sama hátt.

„Verði flugslys, bílslys, sjóslys eða slys á vinnustað er það samkvæmt lögum rannsakað af rannsóknarnefndum umferðarslysa, flugslysa, sjóslysa eða vinnueftirlitinu. Rannsóknir þessar eru ekki sakamálarannsóknir heldur eru að öllu leyti til þess að læra af reynslunni og koma í veg fyrir að sams konar slys endurtaki sig. Þannig hefur okkur undanfarin ár tekist að stórauka öryggi í lofti, láði og legi. Þetta módel þurfum við nú að yfirfæra á dauðsföll sem rekja má til geðheilbrigðisvanda,“ segir hún.

Skýrt að bæta þurfu öryggi geðheilbrigðis

Sem þjónn í Þjóðkirkjunni hafi hún gengið með ótal mörgum fjölskyldum sem misst hafa ástvini í sjálfsvígi, auk þess sem hún hafi stutt fólk sem hefur verið í sjálfsvígshugleiðingum. Þá hef hafi hún sjálf misst náinn ástvin í sjálfsvígi. 

„Ég hef því, eins og aðrir þjónar Þjóðkirkjunnar, langa reynslu af því að vinna með bæði sjálfsvígsforvarnir og afleiðingar sjálfsvíga. Við í kirkjunni sjáum svo skýrt að það þarf að bæti öryggi geðheilbrigðis hér á landi.“

Ekki til þess fallið að fækka sjálfsvígum

„Við verðum, sem samfélag, að taka okkur á þegar kemur að sjálfsvígsforvörnum og því vil ég hvetja öll félagasamtök, stofnanir, Alþingi Íslendinga, já öll þau sem láta sig náungann varða, til þess að taka þetta málefni upp á sína arma og láta sig geðheilsu íbúa þessa lands varða. Ég vona einnig að fjölmiðlar taki þátt í því.“ 

Það hafi því verið þó nokkur vonbrigði að sjá að áhersla Kastljóssins á Rúv, 1. september, hafi verið að ræða skoðanir fólks á tilvist eins ákveðins minnihlutahóps í samfélaginu sem nú berst fyrir tilverurétti sínum. 

Þar vísar hún til umræðu þeirra Þorbjargar Þorvaldsdóttur, verkefnastýru hjá Samtökunum '78, og Snorra Mássonar, þingmanns Miðflokksins um svokallað bakslag í málefnum hinsegin fólks, sér í lagi trans fólks. Dóttir Guðrúnar er trans og hún hefur látið málefni trans fólks sig varða.

Þar fór Snorri mikinn um „hugmyndafræði“ sem hefði grafið um sig í hreyfingu hinsegin fólks þar sem þess væri krafist að fólki trúði því að til væru fleiri en tvö kyn og að „líffræðilegir karlar“ ættu að fá að fara í kvennaklefa. Þetta væri róttæk breyting og skoða þyrfti meint bakslag í því samhengi. 

Fólk hefur keppst við að gagnrýna Snorra harðlega fyrir orðræðu hans og framkomu í gær og í dag.

Biskup lætur vera að gagnrýna Snorra en beinir spjótum sínum frekar að Ríkisútvarpinu, fyrir að leyfa umræðunni að eiga sér stað á þessum degi.

„Umræða sem þessi er ekki til þess gerð að vinna að forvörnum gegn sjálfsvígum. Allra síst á setningardegi forvarna gegn sjálfsvígum.“


Tengdar fréttir

„Þeir sem eru haldnir fordómum eiga ekki að koma nálægt opinberri stefnumótun“

Borgarstjórnarflokkur Framsóknar hyggst leggja til að borgarstjórn samþykki ályktun á fundi sínum í dag þar sem borgin harmi ummæli sem Snorri Másson, þingmaður Miðflokksins, lét falla í Kastljósi Ríkisútvarpsins í gær. Oddviti flokksins og fyrrverandi borgarstjóri segir fólk sem hafi uppi slík ummæli og viðhorf eigi ekkert erindi í stjórnmál.

Fordæmir Snorra harðlega og segir hann gamaldags

Dagur B. Eggertsson, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi borgarstjóri, fer hörðum orðum um málflutning Snorra Mássonar, þingmanns Miðflokksins, um málefni hinsegin fólks og segir hann merki um bakslag í réttindabaráttu þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×