Innlent

Stefna um mikla og hraða fólks­fjölgun „alið á stétta­skiptingu á Ís­landi“

Margrét Helga Erlingsdóttir og Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifa
Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra, segir að mikið kapp verði lagt í að atvinnulífið á landsbyggðinni.
Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra, segir að mikið kapp verði lagt í að atvinnulífið á landsbyggðinni. Vísir/Bjarni

Ríkisstjórnin ætlar að ráðast í stórfellda einföldun regluverks, liðka fyrir leyfisveitingu í orkumálum og beita sér fyrir svæðisbundnum hagvexti úti á landi. Á fundi um atvinnustefnu til næstu tíu ára var tilkynnt um nýstofnað atvinnustefnuráð þar sem fulltrúar hagsmunahópa eru víðs fjarri.

Sveinbjörn Finnsson, aðstoðarmaður ríkisstjórnarinnar, benti í upphafi fundar á að hagvöxtur hefði verið knúinn áfram af fólksfjölgun, einkum aðfluttum einstaklingum sem hafi haft í för með sér verulegt álag á opinbera þjónustu, hvort sem litið væri til húsnæðismarkaðar, samgönguinnviða, menntakerfis eða heilbrigðiskerfis. Einungis eitt prósent þeirra starfa sem hefðu orðið til á síðustu fimmtán árum væru innan atvinnugreina með háa framleiðni.

Fimm manna atvinnustefnuráð var sett á laggirnar en enginn úr hópi hagsmunasamtaka tilheyrir því. Liður í nýrri atvinnustefnu er að einfalda leyfisveitingaferli í orkumálum, einfalda byggingarreglugerð, að stuðningur við rannsóknir og þróun nemi þremur og hálfu prósenti af vergri landsframleiðslu og að skapa vel launuð störf á landsbyggðinni.

Fólksfjölgun haft áhrif

Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra, segir að mikið kapp verði lagt í að atvinnulífið á landsbyggðinni.

„Tími stórframkvæmda er runninn upp að nýju. Við ætlum að beita okkur fyrir stórum verkefnum meðal annars til að koma kjölfestu fjárfestingum út fyrir höfuðborgarsvæðið. Það verður auðvitað alltaf áhersla hérna þar sem öll störfin eru; hér í Reykjavík og nær samfélögum en við þurfum að beita okkur sérstaklega til að fá svæðisbundinn hagvöxt út á landi.“

Fulltrúa ferðaþjónustu þótti leitt að sjá að ekkert táknaði ferðaþjónustu á mynd um atvinnustefnu. Kristrún segir að ferðaþjónusta verði áfram mikilvæg stoð.

„Margar atvinnugreinar geta lifað góðu lífi þótt þær séu ekki broddur hagvaxtar eða það sem keyrir upp hafvöxtinn næstu tíu ár.“

Ríkisstjórnin muni verða ferðaþjónustunni innan handar en ræða þurfi um hina miklu fólksfjölgun.

„Hún hefur haft áhrif á menntakerfið, hún hefur haft áhrif á tækifæri fyrir börn sem hingað koma til að mynda með erlendum foreldrum, hún hefur að mínu mati alið á stéttaskiptingu á Íslandi. Við viljum að fólk sem komi til íslands geti starfað í fjölbreyttum störfum en ekki láglaunastörfum fyrst og fremst og við verðum að taka þá umræðu.“

Tal um lága framleiðni „ekki rétt“

Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar hafnar því að ferðaþjónustunnar upplifi sig út undan og segir hana í góðu samtali við stjórnvöld.

„Það er hins vegar áhugavert að heyra þetta með stéttaskiptinguna af því að nú er það þannig samkvæmt opinberum gögnum að ferðaþjónustan er víð atvinnugrein, margar greinar,“ segir Jóhannes. 

Meiri hluti þeirra sem starfa í greininni séu með laun í kringum meðallaun. Þá sé meðalframleiðni samanborið við aðrar atvinnugreinar á landinu.

„Þannig að allt tal um að þetta sé láglaunagrein með lága framleiðni eða mikið lægri en hagkerfið í heild er ekki rétt.“

Jóhannes segir mikilvægt að atvinnulífið virki sem heild og atvinnugreinarnar styðji hvora aðra. Hann lýsir áhyggjum innan ferðaþjónustunnar af tali stjórnvalda um að framvegis verði horft til þess að setja ferðaþjónustunni hömlur eða takmarkanir til að ýta undir aðrar atvinnugreinar.

„Við teljum að það sé skynsamlegt að allar atvinnugreinar búi við góð starfsskilyrði og rekstrarskilyrði þannig að þær geti vaxið þar sem mögulegt er og framleiðnin aukist. Til þess eru mörg tækifæri í ferðaþjónustu eins og öðrum atvinnugreinum.“

Hvetur ráðuneytið til að tala út frá staðreyndum

Jóhannes bendir á að ferðaþjónustan hafi ýtt undir vöxt annarra atvinnugreina, til dæmis með útflutningi á verðmætum fiskafurðum. Þá sé gott fyrir innfluttu vinnuafli í hugverkaiðnaði að það séu góðar flugtengingar til landsins. 

„Við verðum að horfa á þetta sem Kristrún segir og hefur verið sagt varðandi innflutning á erlendu vinnuafli, að fjölgun erlends vinnuafls í ferðaþjónustunni síðustu ár er ekki nema tíu prósent af heildaríbúafjölgun landsins á þessum tíma. Þannig að það er víðs fjarri að ferðaþjónustan standi undir einhvers konar meiri hluta af fólksfjölgun.“

Það hafi um fimm þúsund manns bæst við ferðaþjónustu á síðustu sjö árum af erlendu vinnuafli. Á sama tíma hafi bæst við um sex þúsund manns í iðnaði og um 4500 í opinbera geiranum. 

„Það er aldrei talað um opinbera geirann og iðnaðinn í þessu samhengi heldur bara ferðaþjónustuna. Þannig að ég hvet bara forsætisráðuneytið til að skoða þessar tölur og tala um ferðaþjónustuna út frá staðreyndum og gögnum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×