Enski boltinn

Segir að Liverpool-menn muni senni­lega aldrei jafna sig á frá­falli Jota

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Andy Robertson og Diogo Jota var vel til vina. Þeir spiluðu saman hjá Liverpool um fimm ára skeið.
Andy Robertson og Diogo Jota var vel til vina. Þeir spiluðu saman hjá Liverpool um fimm ára skeið. getty/Nikki Dyer

Andy Robertson efast um að leikmenn Liverpool muni nokkru sinni jafna sig á fráfalli Diogos Jota.

Portúgalinn lést í bílslysi á Spáni ásamt bróður sínum, André Silva, í júlí. Jota var 28 ára. Hann lætur eftir sig eiginkonu og þrjú ung börn.

Robertson lék með Jota hjá Liverpool og segir að fráfall hans hafi verið þungt högg fyrir leikmannahópinn.

„Þetta setur hlutina í samhengi, varðandi hvað er mikilvægt, að verja tíma með fjölskyldunni og börnunum því þú veist aldrei hvað bíður handan við hornið,“ sagði Robertson.

„Þetta er það erfiðasta sem við munum ganga í gegnum. Að missa einn þinn nánasta vin var mér gríðarlega þungbært og þetta er eitthvað sem við munum sennilega aldrei jafna okkur á. En þetta er byrði sem við verðum að bera,“ bætti Skotinn við.

Jota gekk í raðir Liverpool frá Wolves 2020. Hann lék 182 leiki fyrir Rauða herinn og skoraði 65 mörk. Jota varð Englandsmeistari með Liverpool á síðasta tímabili.

Eftir fráfall Jota lagði Liverpool treyju númer tuttugu til hliðar, honum til heiðurs. Enginn leikmaður Liverpool mun nota treyju númer tuttugu í framtíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×