Upp­gjörið: Þróttur - FHL 2-2 | Jafnt í Laugar­dalnum

Kolbeinn Kristinsson skrifar
528810710_31306258442292742_3134228632613985583_n
vísir/diego

Þróttur og FHL gerðu 2-2 jafntefli á Avis-vellinum í dag. Jafnteflið sennilega sanngjarnt á endanum en frammistaða FHL var að mörgu leyti öflug og þær voru beittar í flestum sínum aðgerðum. Þróttur, sem hafa oft spilað betur í sumar, unnu síðast í deildinni fyrir um mánuði síðan.

Þróttur er í þriðja sæti áfram með 30 stig á meðan FHL situr í botnsætinu með fjögur stig.

Allt jafnt í fyrri hálfleik

Það ríkti ákveðið jafnræði með liðunum fyrstu tíu mínútur leiksins eða svo. Bæði lið voru vel skipulögð og skiptust á að hafa boltann án þess að skapa sér einhver dauðafæri en ef eitthvað þá voru leikmenn FHL ögn beittari.

Það var því ekki beinlínis gegn gangi leiksins þegar Björg Gunnlaugsdóttir kom FHL yfir á 27. mínútu með góðu slútti hægra megin í teignum eftir svokallaða diagonal sendingu frá vinstri frá Calliste Brookshire. Bæði lið fengu sín tækifæri eftir þetta og ljóst að FHL-liðið var ekki komið til að pakka í vörn.

Jöfnunarmarkið kom þó rétt fyrir hálfleik eða á 45. mínútu. Aðdragandinn var töluverður, þ.e. Katie Cousins tók aukaspyrnu á stórhættulegum stað rétt fyrir utan teig sem Keelan, markvörður FHL, gerði frábærlega í að verja í slána, þar barst boltinn út og stuttu síðar skallar Kayla í innanverða stöngina eftir fyrirgjöf frá hægri og Sierra var fyrst að átta sig og skoraði af stuttu færi. Markið á frábærum tíma fyrir Þrótt eða rétt áður en dómarinn flautaði til hálfleiks.

Þegar gengið var til búningsherbergja í hálfleik var staðan 1-1.

Austfirðingarnir óttalausir og stig

Síðari hálfleikurinn var ekki gamall þegar Þróttarar voru búnar að fá sitt fyrsta alvöru færi. Á 50. mínútu kom María Eva liði Þróttar yfir með marki djúpt á fjærstönginni. Einhverjir kynnu að halda að þarna væri björninn unninn og FHL myndu leggja árar í bát, en það var síður en svo. Taylor Marie jafnaði leikinn fyrir FHL á 61. mínútu með góðum skalla eftir fyrirgjöf frá hægri. Bæði lið fengu sín tækifæri kjölfarið og FHL beittara eftir því sem leið á og áttu tvö skot í stöngina í síðari hálfleiknum. Sigurmarkið kom þó ekki og niðurstaðan er sú að liðin taka hvort um sig eitt stig úr þessum leik.

Atvik leiksins

Fyrsta markið hjá Þrótti kom eftir röð alls konar atvika, þ.e. fyrst sláarskot, svo skalli í stöngina og loks eftirfylgni af hálfu Sierra sem skoraði af stuttu færi.

Stjörnur og skúrkar

Í liði Þróttar skoraði Sierra gott mark, Mollee í markinu hafði í nægu að snúast og gerði vel oft og tíðum. Hjá FHL var Björg Gunnlaugsdóttir sífellt að ógna í sóknarleiknum, Taylor Marie sterk frammi og Keelan í markinu var öflug sömuleiðis. Enginn skúrkur í dag.

Dómarinn

Fín frammistaða hjá dómaranum og hans teymi. Lítið var um vafasöm atvik í rauninni og leikurinn fékk að flæða ágætlega. Einkunn 8,5.

Stemning og umgjörð

Er ekki með áhorfendatölur en það var bæði fámennt og góðmennt í stúkunni. Veðrið var íslenskt, þ.e. skýjað, nokkrir dropar og smá vindur.

Viðtöl

Mikið vildi ég að sumarið væri bara að byrja

Björgvin Karl Gunnarsson, þjálfari FHL, var ánægður með stigið sem slíkt en liðið hefði þurft að fá öll þrjú. 

„Mér fannst liðið mitt virkilega gott í dag og mér fannst við fá betri færi í seinni hálfleik til að gera út um leikinn,“ sagði Björgvin Karl.

Aðspurður segir Björgvin Karl að miðað við frammistöðuna og færin þá hefði sigur alls ekki verið ósanngjarn í dag 

„Þetta er búið að vera svolítið sagan okkar í sumar, mikið vildi ég að sumarið væri bara að byrja og við værum að byrja í deildinni, þá væri ég mjög spenntur.“

Næsta verkefni FHL er ærið eða heimaleikur gegn Breiðablik. 

„Við reynum að fara í alla leiki til að fá eitthvað út úr þeim og vonandi getum við sýnt Blikunum það að við getum strítt þeim aðeins,“ sagði Björgvin Karl að lokum.

Bæði lið eru svekkt með að hafa ekki fengið þrjú stig

Ólafur Kristjánsson, þjálfari Þróttar, segir að fyrstu viðbrögð eftir leik séu súr. 

„Bæði lið voru að reyna vinna þennan leik, 2-2 var kannski bara sanngjörn niðurstaða þegar öllu er á botninn hvolft. Tveir góðir markmenn og frábærar markvörslur voru á báða bóga í leiknum,“ sagði Ólafur.

„Leikurinn var opinn og það segir kannski sína sögu að bæði lið eru svekkt með að hafa ekki fengið þrjú stig. Það var ekki fyrr en síðustu sjö mínútur í fyrri hálfleik sem það kom ákefð í mitt lið, fram að því vorum við alltof hægar og svona fyrirsjáanlegar. Byrjunin á seinni hálfleik var sömuleiðis fín en það dugði ekki til.“

Næsti leikur hjá Þrótti í deildinni er leikur gegn Þór/KA fyrir norðan í Boganum en bæði lið mæta særð í þann leik að mati Ólafs. 

„Við verðum að spila af hugrekki og fram á við hugsun þá. Svo þurfum við að taka það með okkur að varnarleikurinn okkar, sem hefur lengst af verið góður, hefur verið svolítið gisinn og þarf að vera betri. Síðan er Þór/KA allt annað lið en FHL, þær svekktar eftir úrslit síðasta leiks hjá sér og það koma kannski tvö særð lið til leiks í Bogann á föstudaginn,“ sagði Ólafur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira