Enski boltinn

„Tottenham Hotspur er ekki til sölu“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Tottenham Hotspur er ekki til sölu.
Tottenham Hotspur er ekki til sölu. Julian Finney/Getty Images

Eftir að hafa vikið formanni félagsins úr starfi á föstudag vöknuðu spurningar um áform eigenda Tottenham Hotspur. Tveir áhugasamir aðilar settu sig í samband um möguleg kaup, en var hafnað með yfirlýsingu í gærkvöldi þar sem félagið er sagt ekki til sölu.

Daniel Levy var neyddur til að hætta síðasta föstudag eftir 25 ára starf sem formaður félagsins. 

Hann var sá síðasti af þremur æðstu ráðamönnum félagsins til að fara en í sumar skipti Tottenham einnig um forstjóra og aðalþjálfara.

Við þessar miklu breytingar vöknuðu spurningar um áform eigenda félagsins, talið var að Tottenham væri á leið í söluferli, en félagið hefur nú gefið út yfirlýsingu þar sem því er hafnað.

„Stjórn Tottenham Hotspur er meðvituð um fréttaflutning síðustu daga og getur staðfest að félaginu hafi borist tvö óformleg kauptilboð, sem hefur verið hafnað… Tottenham Hotspur er ekki til sölu“ segir í yfirlýsingunni

Yfirlýsingin kemur í kjölfar óformlegra kauptilboða frá tveimur aðilum.

Annars vegar frá fjárfestingahópi leiddum af Dr. Roger Kennedy og Wing-Fai Ng. Hins vegar frá fjárfestingahópi leiddum af Amöndu Staveley.

Amanda Staveley ásamt eiginmanni sínum, Mehrdad Ghodoussi (til hægri) og Darren Eales, fyrrum framkvæmdastjóra Newcastle United.Stu Forster/Getty Images

Staveley reyndi ítrekað að kaupa Newcastle af Mike Ashley, þáverandi eiganda, án árangurs en hún spilaði lykilhlutverk sem milliliður í kaupum sádiarabíska ríkissjóðsins á meirihluta í Newcastle árið 2024. Fyrir það fékk hún tíu prósenta hlut í Newcastle sem hún á enn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×