Enski boltinn

Nuno rekinn frá Forest

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Nuno fór með liðið úr fallbaráttu í Evrópudeildina á aðeins tveimur tímabilum en hefur nú verið rekinn. 
Nuno fór með liðið úr fallbaráttu í Evrópudeildina á aðeins tveimur tímabilum en hefur nú verið rekinn.  EPA/VINCE MIGNOTT

Nuno Espirito Santo var seint í gærkvöldi rekinn úr starfi knattspyrnustjóra Nottingham Forest í ensku úrvalsdeildinni, eftir aðeins þrjá leiki á þessu tímabili. Brottreksturinn kemur í kjölfar rifrilda við eiganda félagsins.

Rúmar tvær vikur eru síðan greint var frá ófriðarbáli sem logaði í Skírisskógi. Nuno hellti bensíni á það bál með því að gagnrýna eigandann Evangelos Marinakis opinberlega. Ósættið stafaði af skiptum skoðunum á kaupstefnu sumarsins, Nuno fannst félagið ekki hafa styrkt leikmannahópinn nóg.

„Þar sem er reykur, þar er eldur“ sagði Nuno þá, aðspurður um orðróm um ósætti við Marinakis.

Seint í gærkvöldi, klukkan korter yfir ellefu, sendi Nottingham Forest svo frá sér stutta 80 orða yfirlýsingu þar sem tilkynnt var að Nuno hefði verið rekinn.

Þar honum þakkað fyrir sín störf en Nuno stýrði Nottingham Forest í tæp tvö ár, frá því í desember 2023. Á sínu fyrsta tímabili tók hann við liði í fallbaráttu og hélt því uppi. Á síðasta tímabili endaði liðið í 7. sæti og komst í Evrópudeildina eftir að hafa misst af Meistaradeildarsæti á lokadegi tímabilsins.

Ósættið með kaupstefnu félagsins hafði þó ekki bara með eigandann Marinakis að gera. Í sumar tók Edu við störfum sem yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu.

Forest keypti þrettán leikmenn í sumar en losaði sig við lykilmenn eins og Anthony Elanga, Danilo og Wayne Hennessey.

Nokkrir þjálfarar eru nefndir sem líklegir arftakar í bresku blöðunum. Helst er það Ange Postecoglou sem er talinn líklegur, enda grískur að uppruna eins og eigandinn Marinakis.

Jose Mourinho er einnig inni í myndinni en hann var rekinn frá Fenerbahce á dögunum.

Domenico Tedesco hefur verið nefndur í því samhengi, en hann hefur verið án starf síðan honum var sagt upp störfum sem landsliðsþjálfari Belgíu í janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×