Fótbolti

Mikael hraunaði yfir dómarann í hálf­leik og lagði svo upp

Sindri Sverrisson skrifar
Mikael Anderson lék með Íslandi gegn Frökkum á þriðjudaginn og var svo mættur aftur í slaginn í Svíþjóð í dag.
Mikael Anderson lék með Íslandi gegn Frökkum á þriðjudaginn og var svo mættur aftur í slaginn í Svíþjóð í dag. Getty/Tnani Badreddine

Landsliðsmaðurinn Mikael Anderson var afar óánægður með gula spjaldið sem hann fékk í grannaslag með Djurgården gegn Hammarby í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Hann hneykslaðist á dómaranum í viðtali í hálfleik og lagði svo upp mark í seinni hálfleiknum, í 3-3 jafntefli.

Mikael fékk að líta gula spjaldið frá dómaranum Joakim Östling eftir að hafa, að minnsta kosti að eigin mati, farið með öxl í öxl í baráttu um boltann. Hann kom inn á þetta í viðtali við HBO Max í hálfleik, þegar Djurgården var 2-1 undir:

„Við þurfum að tala um dómarann. Það var sjokkerandi þegar hann gaf mér gult spjald í þessari aukaspyrnu. Hvað get ég sagt? Þetta er virkilega lélegt hjá dómaranum,“ sagði Mikael.

Gula spjaldið þýðir að hann verður í banni í næsta leik, gegn Malmö.

En Mikael átti svo hornspyrnu snemma í seinni hálfleik sem endaði með jöfnunarmarki, sem sennilega skráist sem sjálfsmark.

Gestirnir frá Hammarby komust aftur yfir en Djurgården náði að jafna á sjöttu mínútu uppbótartíma og þar við sat.

Djurgården er nú með 35 stig eftir 23 leiki, í 8. sæti af 16 liðum. Hamarby er hins vegar næstefst með 46 stig en þó tíu stigum á eftir Mjällby.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×