Sport

Beit and­stæðing á HM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Axelle Berthoumieu bítur Aofie Wafer.
Axelle Berthoumieu bítur Aofie Wafer.

Leikmaður franska kvennalandsliðsins í rugby beit leikmann Írlands í leik liðanna á heimsmeistaramótinu í gær.

HM í rugby fer nú fram á Englandi. Í átta liða úrslitunum mættust meðal annars Frakkar og Írar.

Þrátt fyrir að vera 13-0 undir í hálfleik vann Frakkland leikinn, 18-13, og tryggði sér sæti í undanúrslitum HM.

Endurkoma Frakka var þó ekki aðalumræðuefnið eftir leik heldur atvik sem átti sér stað í upphafi seinni hálfleiks.

Þá virtist hin franska Axelle Berthoumieu bíta í handlegg hinnar írsku Aoife Wafer þegar þær börðust um boltann.

Wafer náði boltanum og benti dómaranum á að hún hefði verið bitin. Leikmenn írska liðsins bentu einnig á atvikið á risaskjá á vellinum í Exeter en dómarinn aðhafðist ekkert þar sem hann hafði misst af bitinu.

Berthoumieu slapp með skrekkinn, í bili, en hún gæti enn fengið bann fyrir bitið.

Netverjar voru fljótir að líkja Berthoumieu við úrúgvæska fótboltamanninn Luis Suárez hefur þrisvar sinnum verið gripinn við að bíta andstæðing.

Í undanúrslitum heimsmeistaramótsins mætir Frakkland heimaliði Englands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×