Handbolti

Skylda að klippa vel neglur í hand­bolta

Sindri Sverrisson skrifar
Handboltafólk verður að gæta þess að vera ekki með neglur sem valdið gætu skaða.
Handboltafólk verður að gæta þess að vera ekki með neglur sem valdið gætu skaða. Getty/Uwe Anspach

Í endurbættum reglum Alþjóða handknattleikssambandsins er tekið sérstaklega fram að fingurneglur leikmanna verði að vera klipptar stutt.

Neglureglan er í raun viðbót við reglu 4:9 þar sem fjallað er um það að leikmenn verði að klæðast íþróttaskóm og megi ekki vera með neinn búnað sem ógnað geti öryggi mótherja, eins og til að mynda hálsmen, eyrnalokka, úr eða annað. Núna er svo sérstaklega tekið fram að ekki megi vera með neina hluti sem valdið geti skrámum og að neglur verði að vera klipptar stutt.

Danski ríkismiðillinn DR fjallar um þetta og hefur eftir Jørn Møller Nielsen, dómaraeftirlitsmanni og reglutúlk hjá danska handknattleikssambandinu, að nýja reglan sé ekki til komin vegna þess að um sérstakt vandamál hafi verið að ræða.

„Það er bara aðeins búið að útvíkka reglurnar um það sem hefur alltaf verið bannað,“ sagði Nielsen. En hversu stuttar þurfa neglurnar að vera?

„Þær þurfa bara að vera almennilega klipptar. Bara þannig að þær fari ekki fram fyrir fingurgómana,“ sagði Nielsen.

Hann segir einnig ljóst að dómarar mæti ekki með málband á leiki og kanni neglurnar hjá öllum leikmönnum:

„Ég held að við förum nú ekki að raða leikmönnum upp í röð með hendur fram til að mæla neglurnar. Þetta mun ekki breyta neinu varðandi framkvæmd leikja,“ sagði Nielsen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×