Innlent

„Ýtnir og frekir“ út­lendingar þykjist heyrnar­lausir til að svíkja af fólki fé

Agnar Már Másson skrifar
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu. Vísir/Vilhelm

Erlendir menn hafa að sögn lögreglu verið á kreiki við verslunarmiðstöðvar á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu þar sem þeir þykjist safna peningum í nafni Félags heyrnarlausra, þrátt fyrir að tengjast ekki félaginu með nokkrum hætti.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við þessu í fréttatilkynningu. Þar segir að um erlenda ríkisborgara sé að ræða sem þykjast jafnvel sjálfir vera heyrnarlausir.

Samkvæmt lögreglu eru þeir sagðir „mjög ýtnir og frekir“ við að fá fólk til að millifæra peninga. 

„Borist hafa ábendingar vegna þessa og því er ítrekað að umræddir aðilar eru EKKI á vegum Félags heyrnarlausra,“ segir í tilkynningu lögreglu.

Vísir hefur leitað viðbragða frá Félagi heyrnarlausra.

Þetta er alls ekki í fyrsta sinn sem slíkt gerist. Árið 2016 var greint frá því þegar óprúttnir aðilar, sem þóttust heyrnarlausir, gengu milli fólks í verslunarmiðstöðvum og á milli húsa til að hafa af mönnum fé.

Veistu meira? Þú getur sent okkur fréttaskot hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×