Íslenski boltinn

„Ömur­leg frammi­staða hjá gæjunum í gulu búningunum“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Rúnar Kristinsson er þjálfari Fram
Rúnar Kristinsson er þjálfari Fram Vísir/Diego

Rúnar Kristinsson fékk fyrsta rauða spjaldið á þjálfaraferlinum þegar hann var rekinn af velli í 2-1 tapi Fram gegn Víkingi. Frammistaða dómaranna var honum líka efst í huga eftir leik.

„Frábær frammistaða minna manna. Frábærir Framarar í stúkunni að styðja okkur. Ömurleg frammistaða hjá gæjunum í gulu búningunum“ sagði Rúnar.

Hvað varstu helst ósáttur með?

„Vítaspyrnan er aldrei vítaspyrna. Svo getum við deilt um það hvort Helgi hafi stoppað í aðdragandanum eða hvort Viktor hafi farið eitthvað örlítið af línunni. Það er mikið af vafaatriðum sem ég er ósáttur við og mér fannst þeir [dómararnir] bara guggna undan pressunni sem var sett á þá í Víkinni.“

Vítaspyrnan sem Víkingur fékk var sannarlega vafasöm, þó brotið virtist augljóst við fyrstu sýn hefði dómurinn líklega ekki staðið í deild með VAR-dómara.

Víkingur tók vítaspyrnuna síðan tvisvar vegna þess að Viktor Freyr fór of snemma af línunni, að mati dómara. Helgi Guðjónsson skoraði í annarri tilraun.

Fram tókst síðan að jafna en Gylfi Þór Sigurðsson kom Víkingum aftur yfir skömmu síðar.

Á lokamínútum færðist mikil harka í leikinn, menn tókust á úti við hliðarlínu og létu líka í sér heyra. Rúnar fékk svo rautt spjald.

Hvers vegna fékkstu rautt spjald?

„Af því ég var reiður og ósáttur við þá. Fyrsta rauða spjaldið á ferlinum, ég hef alltaf náð að hemja mig þó ég hafi æst mig stundum. En yfirleitt þegar þjálfarar fá rautt spjald er það vegna þess að dómararnir hafa, að okkar mati, átt slæman dag.

[Sigurður Hjörtur Þrastarsson] er einn besti dómari landsins að mínu mati en mér fannst hann guggna undan pressunni í dag… Mér fannst hann guggna undan pressu og gefa þeim ódýrt víti, sem mér fannst ekki vera víti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×