Handbolti

Segja leik­menn hafa kvartað undan Guð­mundi

Sindri Sverrisson skrifar
Ef satt reynist voru leikmenn Fredericia komnir með nóg af kröfum Guðmundar Guðmundssonar.
Ef satt reynist voru leikmenn Fredericia komnir með nóg af kröfum Guðmundar Guðmundssonar. EPA/GEORGI LICOVSKI

Það kom til greina hjá forráðamönnum danska handknattleiksfélagsins Fredericia að reka Guðmund Guðmundsson strax í sumar og leikmenn liðsins kvörtuðu undan starfsháttum hans, samkvæmt frétt danska handboltamiðilsins hbold.dk.

Þrátt fyrir þann frábæra árangur sem Fredericia hefur náð síðustu ár, undir stjórn Guðmundar, var honum sagt upp á mánudaginn. Liðið hafði þá tapað þremur af fyrstu fjórum leikjum tímabilsins og alls níu af síðustu tíu leikjum ef horft er einnig til síðustu leiktíðar.

Samkvæmt frétt hbold.dk var rætt um að láta Guðmund fara í sumar en ákveðið að gefa honum tækifæri á nýju tímabili.

Hins vegar segir miðillinn að samkvæmt sínum upplýsingum hafi leikmenn verið orðnir óánægðir og viljað losna við Guðmund, þrátt fyrir að hann hafi til að mynda komið liðinu í Meistaradeild Evrópu í fyrsta sinn.

Miðillinn segir leikmenn raunar hafa verið óánægða með aðferðir þjálfarans og samskipti við hann um langa hríð. Tónninn hafi ekki alltaf verið blíður í klefanum. Þó að árangurinn hafi verið góður og Fredericia þakki Guðmundi fyrir að hafa komið liðinu aftur í fremstu röð þá hafi þolinmæði manna á endanum verið á þrotum.

Bent Nyegaard, handboltasérfræðingur TV 2, hefur einnig rætt um það að Guðmundur sé afar kröfuharður þjálfari og að þegar leikmenn gangi ekki í takti við þær kröfur sé lítið hægt að gera.

„Við skulum ekki gleyma að hann náði stórum úrslitum og endaði í 3. sæti deildarinnar á síðustu leiktíð, sem kom liðinu í Evrópudeildina. Svo það er margt sem hefur heppnast en Guðmundur Guðmundsson er mjög kröfuharður þjálfari, það þarf sterkan vilja og löngun til að vinna fyrir hann. Og þegar það slokknar aðeins þá breytist hópurinn aðeins og þá er þetta ekki hópurinn hans Guðmundar Guðmundssonar. Þess vegna skil ég vel að Fredericia hafi valið aðra lausn,“ sagði Nyegaard.

Jesper Houmark og Michael Wollesen, sem voru aðstoðarmenn Guðmundar, munu stýra Fredericia út tímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×