Golf

Stjörnustjarfur þegar hann sá Zola á Ryder bikarnum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Justin Rose er stuðningsmaður Chelsea og aðdáandi Zola sem hefur golfað mikið eftir að fótboltaferlinum lauk.
Justin Rose er stuðningsmaður Chelsea og aðdáandi Zola sem hefur golfað mikið eftir að fótboltaferlinum lauk.

Justin Rose viðurkennir að hafa orðið stjörnustjarfur þegar hann hitti óvænt fyrrum fótboltamanninn og kerrubílstjórann Gianfranco Zola á æfingu fyrir Ryder bikarinn.

Tæplega þrjátíu ár eru síðan Zola raðaði inn mörkum og titlum fyrir Chelsea á Englandi, hann hefur sinnt ýmsum störfum síðan þá, sveiflað golfkylfunni heilmikið líka og verður í hlutverki bílstjóra á Ryder bikarnum sem fer fram í New York um helgina.

Zola mun keyra kerruna fyrir samlanda sinn frá Ítalíu, Francesco Molinari, sem er varafyrirliði evrópska liðsins.

„Ég hitti margt flott fólk í gegnum golfið en ég sagði bara: VÁ! Hey, Gianfranco! Ég varð alveg stjörnustjarfur, sem er stórkostlegt“ sagði Justin Rose, kylfingur í evrópska liðinu, eftir að hafa óvænt rekist á Zola í dag.

Zola tekur sig vel út sem bílstjóri. Andrew Redington/Getty Images

Zola verður ekki hluti af þjálfarateymi evrópska liðsins en mun eflaust miðla sinni reynslu.

„Ef það er eitthvað sem hann sér og getur miðlað til okkar, sérstaklega þegar kemur að pressu eða stemningunni á vellinum, þá mun hann auðvitað koma sterkur inn. Vonandi finnur hann eitthvað tækifæri til þess því ég myndi elska að heyra hvað hann hefur að segja“ sagði Justin Rose einnig en hann er yfirlýstur stuðningsmaður Chelsea og greinilega mikill aðdáandi Zola.

Opnunarhátíð Ryder bikarsins fór fram í kvöld en mótið sjálft hefst á föstudag og stendur yfir fram á sunnudag, í beinni útsendingu á Sýn Sport. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×