Enski boltinn

Man. Utd tryggir sér aftur táning frá S-Ameríku en fær hann ekki strax

Sindri Sverrisson skrifar
Rúben Amorim fékk tvo unga leikmenn frá Arsenal og gaf þeim tækifæri á síðustu leiktíð. Nú hefur United tryggt sér tvo leikmenn frá Suður-Ameríku en annar þeirra kemur þó ekki fyrr en næsta sumar.
Rúben Amorim fékk tvo unga leikmenn frá Arsenal og gaf þeim tækifæri á síðustu leiktíð. Nú hefur United tryggt sér tvo leikmenn frá Suður-Ameríku en annar þeirra kemur þó ekki fyrr en næsta sumar. Getty/Carl Recine

Manchester United hefur komist að samkomulagi við Fortaleza CEIF um kaup á hinum 17 ára gamla Cristian Orozco, unglingalandsliðsmanni Kólumbíu.

Orozco mun þó ekki koma til United strax en samkvæmt The Athletic er búist við að þessi varnarsinnaði miðjumaður mæti á Old Trafford í júlí á næsta ári, þegar hann verður orðinn 18 ára gamall.

Orozco var í liði Kólumbíu sem komst í úrslitaleikinn í ár í Suður-Ameríkukeppni U17-landsliða, þar sem liðið tapaði gegn Brasilíu eftir vítaspyrnukeppni.

Orozco leikur eins og fyrr segir með Fortaleza sem er í efstu deild Kólumbíu.

Hann er annar táningurinn á skömmum tíma sem United tryggir sér frá Suður-Ameríku en áður hafði félagið keypt 18 ára bakvörðinn Diego Leon, frá Cerro Porteno í Paragvæ. Leon hefur tvisvar verið í leikmannahópi United það sem af er leiktíð en ekki spilað fyrir liðið.

Áður hafði United náð í varnarmanninn Ayden Heaven, sem er 19 ára, og sóknarmanninn Chido Obi, sem er aðeins 17 ára, frá Arsenal og þreyttu þeir báðir frumraun sína í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.

Næsti leikur United er gegn Brentford í hádeginu á morgun, í beinni útsendingu á Sýn Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×