Enski boltinn

Flottustu mörkin hjá Newcastle og Arsenal: Snilld Bergkamps og þrumu­fleygur Tiotés

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mörg frábær mörk hafa litið dagsins ljós í leikjum Newcastle United og Arsenal.
Mörg frábær mörk hafa litið dagsins ljós í leikjum Newcastle United og Arsenal. vísir/getty

Newcastle United fær Arsenal í heimsókn í lokaleik 6. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn. Mörg glæsileg mörk hafa verið skoruð í viðureignum þessara liða í gegnum tíðina.

Newcastle hefur farið nokkuð rólega af stað í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu og aðeins unnið einn leik. Arsenal hefur aftur á móti náð í tíu stig af fimmtán mögulegum.

Frá því enska úrvalsdeildin var sett á laggirnar tímabilið 1992-93 hafa Newcastle og Arsenal mæst sextíu sinnum. Skytturnar hafa unnið 36 leiki, Skjórarnir þrettán og ellefu sinnum hefur orðið jafntefli.

Eitt frægasta mark í sögu ensku úrvalsdeildarinnar kom í leik þessara liða á St James' Park 2. mars 2002. Dennis Bergkamp sneri þá á ótrúlegan hátt á Nikos Dabizas og lagði boltann svo framhjá Shay Given í marki Newcastle.

Þá gleyma stuðningsmenn Newcastle þrumuskoti Cheicks Tioté heitins í leik gegn Arsenal 5. febrúar 2011. Þetta var eina mark Tiotés fyrir Newcastle en með því jafnaði hann í 4-4. Arsenal komst í 0-4 en Newcastle jafnaði eftir eina svakalegustu endurkomu í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.

Klippa: Tíu flottustu mörkin úr leikjum Newcastle og Arsenal

Þetta eru bara tvö af þeim fjölmörgu glæsimörkum sem hafa verið skoruð í leikjum Newcastle og Arsenal. Í spilaranum hér fyrir ofan má sjá tíu flottustu mörkin sem skoruð hafa verið í viðureignum liðanna í ensku úrvalsdeildinni.

Leikur Newcastle og Arsenal hefst klukkan 15:30 á sunnudaginn og verður sýndur beint á Sýn Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×