Enski boltinn

Amorim svekktur: „Þetta er mjög sárt“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ruben Amorim er undir mikilli pressu.
Ruben Amorim er undir mikilli pressu. getty/Vince Mignott

Ruben Amorim, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að hans menn hafi ekki haft nógu góða stjórn á leiknum gegn Brentford. Hann segir að tapið svíði.

United laut í lægra haldi fyrir Brentford, 3-1, í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Rauðu djöflarnir eru aðeins með sjö stig eftir fyrstu sex umferðirnar.

„Auðvitað vildum við vinna. Við stjórnuðum ekki leiknum. Við spiluðum leik Brentford. Fyrsti bolti, annar bolti, föst leikatriði. Öll stóru augnablikin fóru gegn okkur. Það er erfitt að tapa en við verðum að hugsa um næsta leik,“ sagði Amorim.

„Fyrsta markið kom eftir langa sendingu. Við unnum í því í vikunni og föstum leikatriðum. Við vissum að löngu boltarnir kæmu og með einni snertingu fengu þeir færið. Við verðum að gera betur. Við spiluðum ekki okkar leik og vorum aðeins með stjórnina á köflum. En þetta var meira og minna það sama. Við þurfum að spila okkar leik, ekki leik andstæðingsins en þeir eru sterkari en við.“

Staða United er ekki góð og pressan á Amorim eykst stöðugt.

„Það er alltaf eins þegar þú tapar hjá þessu félagi. Þetta er mjög sárt. Við þurfum að hugsa um næsta leik,“ sagði Amorim.

Næsti leikur United er gegn Sunderland á Old Trafford eftir viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×