Fótbolti

„Ef menn trúa því getum við farið ansi langt“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Helgi Sigurðsson stýrði Fram til sigurs í kvöld.
Helgi Sigurðsson stýrði Fram til sigurs í kvöld. Vísir/Diego

„Okkur líður bara öllum mjög vel með þetta. Þetta var planið, að vinna þennan leik,“ sagði Helgi Sigurðsson, sem stýrði Fram til sigurs gegn Val í Bestu-deild karla í kvöld.

Helgi stóð vaktina á hliðarlínunni í fjarveru Rúnars Kristinssonar, sem tók út leikbann.

„Við vildum sýna okkur sjálfum og fólkinu í kringum okkur, félaginu og stupningsmönnum að við getum unnið svona stóra leiki. Við höfum gert það áður á móti Val og ætluðum að gera það aftur í dag. Það gekk eftir og ég myndi segja að þetta hafi bara sanngjarn sigur.“

„Menn lögðu mikið í þetta. Við vorum þéttir og vorum að vinna fyrir hvern annan. Við erum bara með hörkufótboltalið og ef menn trúa því þá getum við farið ansi langt. En menn verða þá að sýna svona frammistöðu í hverjum einasta leik.“

Þá hrósaði Helgi Fred, sem skoraði sín fyrstu mörk á tímabilinu í kvöld. 

„Hann er algjörlega frábær, en við erum líka aðeins búnir að vera að ýta á hann að hann þurfi að fara að skila einhverjum mörkum fyrir okkur og hvatt hann til dáða með það. Það var bara frábært að sjá hann í kvöld. Hann var algjörlega frábær og hann er virkilega góður fótboltamaður. Vinnur vel fyrir liðið og hefur þurft að spila aðeins aftar á vellinum í sumar. En í kvöld var hann einn af framherjunum og skilaði því heldur betur með tveimur mörkum og sigri. Hann má njóta þess í kvöld.“

Helgi segir einnig að það hafi ekki endilega verið nýtt fyrir honum að stjórna liðinu einn, í fjarveru aðalþjálfarans Rúnars Kristinssonar.

„Nei í raun og veru ekki. Ég er alveg vanur því að stjórna liðum einn líka. En við vinnum vel saman og erum ein þétt heild. Það er alveg sama hvort það séu leikmenn, þjálfarateymið eða stjórnin á bakvið okkur. Við vinnum sem einn maður og ef mér verður á í messunni og fæ eitthvað rautt spjald þá stígur Rúnar upp og öfugt. Við erum að vinna að þessu saman og það er það sem er að skila þessum góða árangri.“

Að lokum segir Helgi að framundan séu þrír mikilvægir leikir í lok mótsins, þrátt fyrir að Fram hafi í raun ekki að neinu að keppa.

„Það er stór munur á því að vera í sjötta sæti eða kannski fjórða. Það er alltaf gott að fara inn í veturinn með eitthvað jákvætt í farteskinu. Þetta var einn liður í því, en það eru þrír leikir eftir. Það eru allt erfiðir leikir og við verðum bara að halda fókus og reyna að klífa eins hátt upp töfluna og mögulegt er.“

„Fjórða sætið er innan seilingar. Við eigum eftir að spila við Blikana og við bara höldum ótrauðir áfram. Njótum í kvöld, en svo er bara grjóthörð æfing á morgun,“ sagði Helgi að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×