Golf

Bjór kastað í konu McIlroy: „Þurfti að þola ó­trú­legt magn af sví­virðingum“

Sindri Sverrisson skrifar
Erica Stoll fékk yfir sig mikið magn af fúkyrðum og einnig bjórglas á Ryder-bikarnum í ár. Ólíðandi, segir eiginmaður hennar Rory McIlroy.
Erica Stoll fékk yfir sig mikið magn af fúkyrðum og einnig bjórglas á Ryder-bikarnum í ár. Ólíðandi, segir eiginmaður hennar Rory McIlroy. Getty/Jared C. Tilton

Þó að Evrópubúar hafi verið himinlifandi eftir sigurinn gegn Bandaríkjunum í gær, í Ryder-bikarnum í golfi, voru þeir hundóánægðir með framgöngu áhorfenda í New York sem sumir fóru langt yfir strikið.

Norður-Írinn Rory McIlroy virtist sérstaklega verða fyrir miklu aðkasti um helgina en ekki síður eiginkona hans, hin bandaríska Erica Stoll, sem fylgdi sínum manni eftir.

Á myndbandi sést til að mynda þegar bjórplastglasi var kastað þannig að það lenti á höfði Stoll.

Löggæsla var aukin á mótinu og lögregluhundar voru á svæðinu, og hálfgrínaðist McIlroy með það að sleppa hefði átt hundunum lausum, til að ráðast á „golfbullurnar“ sem gengu of langt.

McIlroy, sem náði í þrjá og hálfan vinning á föstudag og laugardag en tapaði svo fyrir Scottie Scheffler í einvígi í gær, segir að ekki komi til greina að sams konar hegðun verði liðin þegar Ryder-bikarinn verður í Evrópu eftir tvö ár. Það sé of langt gengið þegar fúkyrðin beinist að fjölskyldu kylfinga.

„Ætti að vera alveg bannað“

„Það ætti að vera alveg bannað [að urða yfir fjölskyldur kylfinga] en augljóslega var það ekki þannig þessa helgi. Það er í góðu lagi með Ericu. Hún er mjög, mjög sterk kona. Hún höndlaði allt sem á gekk um helgina með mikilli yfirvegun, klassa og virðingu, eins og hún gerir alltaf. Ég elska hana og við munum njóta þess að fagna saman í kvöld,“ sagði McIlroy eftir sigurinn í gær.

Norður-Írinn sagði frá því í fyrra að þau Stoll væru skilin en þau náðu svo aftur saman seinna um sumarið.

„Ótrúlegt hvernig henni tókst að halda áfram“

Félagi McIlroy í fjórboltanum, Shane Lowry, hrósaði Stoll eftir mótið:

„Ég var þarna í tvo daga með Ericu McIlroy og hún þurfti að þola ótrúlegt magn af svívirðingum. Það var ótrúlegt hvernig henni tókst að halda áfram þarna úti að styðja við eiginmann sinn og liðið, og hún á hrós skilið fyrir það,“ sagði Lowry.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu voru tveir áhorfendur fjarlægðir af vellinum vegna hegðunar sinnar á laugardaginn, segir í frétt ESPN. Þann dag sást McIlroy meðal annars snúa sér að áhorfendum fyrir högg á 16. braut og kalla „viljið þið halda f***ing kjafti!“

Hann átti svo í kjölfarið frábært högg og naut þess í botn en er harður á því að áhorfendur eigi ekki að fá að komast upp með að reyna sífellt að trufla kylfinga með ljótum hrópum.

„Mér finnst að við megum ekki samþykkja þetta í golfi. Mér finnst að golf eigi að vera hærra metið en svo að það sem sást í þessari viku endurtaki sig. Golf getur sameinað fólk. Golf kennir manni góðar lífsreglur. Það kennir manni kurteisi. Það kennir manni að fara eftir reglum. Það kennir manni að sýna fólki virðingu. Stundum var það ekki þannig þessa viku,“ sagði McIlroy.

„Það var mikið af óásættanlegu orðbragði og móðgandi hegðun. En höfum í huga að þetta er minnihluti áhorfenda. Þetta er ekki meirihlutinn. Meirihluti fólksins hér eru sannir, virðulegir golfáhugamenn sem leyfa báðum liðum að fá sama tækifæri til að slá og spila sanngjarna keppni. En það var lítill hópur fólks sem hagaði sér aðeins öðruvísi en það,“ sagði McIlroy og hélt áfram:

„Þetta ætti ekki að vera ásættanlegt í Ryder bikarnum. En við munum tryggja að við segjum við aðdáendur okkar á Írlandi árið 2027 að það sem gerðist hér í þessari viku sé ekki ásættanlegt, og fyrir mér er það: „Komið og styðjið heimaliðið ykkar. Komið og styðjið liðið ykkar.““




Fleiri fréttir

Sjá meira


×