Veður

Dregur úr vindi og úr­komu þegar líður á daginn

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti verður á bilinu eitt til tíu stig að deginum, mildast syðst.
Hiti verður á bilinu eitt til tíu stig að deginum, mildast syðst. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan gerir ráð fyrir vestan eða norðvestan fimm til þrettán metrum á sekúndu og skúrum eða slydduéljum. Þó verður að mestu úrkomulaust á Suðausturlandi og Austfjörðum.

Á vef Veðurstofunnar segir að þegar líður á daginn muni draga úr vindi og úrkomu, fyrst vestanlands en í kvöld verði orðið bjartviðri á öllu landinu.

Lögreglan á Vestfjörðum bendir á að staðan sé nú þannig að það sé vetrarfærð á vegum víða á Vestfjörðum, sér í lagi fjallvegum. „Ökumenn eru beðnir um að aka í samræmi við aðstæður og gefa sér tíma. Það er alltaf svolítil áskorun að fara um á svona morgnum fyrst um sinn á haustin.“ Hálka er á Steingrímsfjarðarheiði, Þröskuldum, Dynjandisheiði, Kleifaheiði, Klettsháls og Gemlufallsheiði. Hálkublettir eru á Hálfdán og víða á norðanverðum Vestfjörðum.

Í nótt verður vaxandi sunnanátt og úrkomuskil koma að sunnan- og vestanverðu landinu með rigningu. Hiti verður á bilinu eitt til tíu stig að deginum, mildast syðst.

„Snemma í fyrramálið gengur síðan í vestan hvassviðri eða storm með nokkuð efnismiklum skúrum, en úrkomulítið fram eftir degi norðaustantil. Heldur dregur úr úrkomu eftir hádegi á morgun, en ekki dregur úr vindi að neinu viti fyrr en aðfaranótt fimmtudags,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag: Gengur í vestan 13-23 m/s með rigningu víða um land, hvassast syðst, en skúrum eða slydduéljum seinnipartinn og styttir þá upp suðaustanlands. Hiti 3 til 10 stig.

Á fimmtudag: Suðvestan 8-15 m/s og fer að rigna sunnan- og vestanlands. Heldur hægari vindur og skýjað með köflum norðaustantil, en fer að rigna þar um kvöldið. Hiti 4 til 9 stig.

Á föstudag: Suðvestlæg eða breytileg átt, 5-10 m/s. Rgirning sunnantil, en stöku skúr norðanlands. Hiti breytist lítið.

Á laugardag: Hæg breytileg átt og yfirleitt bjart og þurrt. Hiti 2 til 8 stig, mildast syðst.

Á sunnudag og mánudag: Hlý suðlæg átt og súld eða dálítil rigning, en þurrt að mestu á Norður- og Austurlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×