Viðskipti innlent

Kaup­máttur jókst í fyrra

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Kaupmáttur jókst í fyrra.
Kaupmáttur jókst í fyrra. Vísir/Vilhelm

Kaupmáttur ráðstöfunartekja á mann jókst um 2,3 prósent árið 2024 að teknu tilliti til verðlagsþróunar. Vísitala neysluverðs hækkaði um 5,9 prósent.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagstofunni þar sem segir að ráðstöfunartekjur heimilanna hafi aukist um 10,3 prósent árið 2024 borið saman við fyrra ár samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum. Ráðstöfunartekjur á mann námu rúmlega 6,1 milljón króna á árinu og jukust um 8,3 prósent frá fyrra ári.

Segir ennfremur í tilkynningunni að lagt sé upp með að endanlegar tölur fyrir árið 2024 verði birtar í mars árið 2026. Þá muni liggja fyrir ítarlegri gögn um rekstur fyrirtækja.

Segir Hagstofan að heildartekjur heimilanna hafi aukist um 9,5 prósent árið 2024 samanborið við fyrra ár en þar af jukust launatekjur um 7,4 prósent og eignatekjur um 18,9 prósent. Lífeyristekjur og félagslegar tilfærslur jukust um 11,8 prósent sem má að mestu rekja til 12,4 prósenta hækkunar lífeyristekna frá fyrra ári en tekjutilfærslur frá almannatryggingum jukust einnig um 7,4 prósent.

Gjöld heimilanna jukust um 8,6 prósent á árinu 2024 samanborið við fyrra ár en þar af jukust skattar á laun um 6,7 prósent og vaxtagjöld um 17 prósent.

Samkvæmt nýju bráðabirgðamati 2025 jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann um 1,5 prósent á fyrsta ársfjórðungi 2025 og um 1,1 prósent á öðrum ársfjórðungi.

Ráðstöfunartekjur heimilanna jukust um 6,5 prósent á öðrum ársfjórðungi 2025 samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum borið saman við sama tímabil fyrra árs. Ráðstöfunartekjur á mann námu rúmlega 1,6 milljónum króna á ársfjórðungnum og jukust um 5,2 prósent frá sama tímabili í fyrra. Að teknu tilliti til verðlagsþróunar jókst kaupmáttur á mann um 1,1 prósent á tímabilinu en vísitala neysluverðs hækkaði um 4,1 prósent á sama tímabili.

Heildartekjur heimilanna jukust um 7,4 prósent á öðrum ársfjórðungi 2025. Sá liður sem vegur hvað þyngst í aukningu heildartekna er launatekjur en þær jukust um 7,5 prósent frá sama ársfjórðungi á síðasta ári.

Lífeyristekjur og félagslegar tilfærslur jukust um 9,5 prósent á öðrum ársfjórðungi 2025 samanborið við sama tímabil fyrra árs og námu 15,3 prósentum af heildartekjum heimilanna á ársfjórðungnum.

Gjöld heimilanna jukust um 8,4 prósent á öðrum ársfjórðungi en þar af jukust skattar á laun um 8,7 prósent og vaxtagjöld um 3 prósent. Þá jukust tryggingagjöld atvinnurekenda og launafólks heimilageirans um 5,9 prósent samanborið við sama tímabil fyrra árs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×