Atvinnulíf

„Starfs­fólkið sem eftir er vegnar oft verr and­lega heldur en fólkinu sem hættir“

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Hilja Guðmundsdóttir, ráðgjafi hjá Mental ráðgjöf og sérfræðingur í mannauðsstjórnun, segir vinnustaði oft vanmeta mikilvægi þess að hlúa að þeim sem eftir eru á vinnustaðnum í kjölfar hópuppsagna. Því rannsóknir sýna að þeim hópi vegnar oft verr andlega en fólkinu sem hættir.
Hilja Guðmundsdóttir, ráðgjafi hjá Mental ráðgjöf og sérfræðingur í mannauðsstjórnun, segir vinnustaði oft vanmeta mikilvægi þess að hlúa að þeim sem eftir eru á vinnustaðnum í kjölfar hópuppsagna. Því rannsóknir sýna að þeim hópi vegnar oft verr andlega en fólkinu sem hættir. Vísir/RAX

„Rannsóknir sýna að starfsfólkið sem eftir er vegnar oft verr andlega heldur en fólkinu sem hætti störfum í kjölfar uppsagnar,“ segir Hilja Guðmundsdóttir ráðgjafi hjá Mental ráðgjöf og sérfræðingur í mannauðsstjórnun. Og er þar að vísa í það sem getur gerst á vinnustað, eftir hópuppsagnir.

Hilja gefur okkur ýmiss góð ráð í dag. Sem bæði eiga við um það hvernig fólki líður í kjölfar hópuppsagnar, eða ef fyrirtæki leggja upp laupana og enginn vinnustaður er til að grípa fólk í því áfalli sem það getur upplifað í kjölfar óvænts atvinnumissis.

„Fólk upplifir allan tilfinningaskalann. Eitt sinn átti ég samtal við ættingja em var nýbúinn að missa vinnuna sína sem sagðist ekki vita hvað væri í gangi með sig. Viðkomandi væri ýmist grátandi eða hlæjandi,“ segir Hilja sem dæmi:

„En það er einmitt dæmi um það sem getur gerst. Því allar tilfinningar geta komið fram og þar er mikilvægast að vita að þær eiga allar rétt á sér.“

Í Atvinnulífinu í gær og í dag er fjallað um áföll á vinnustöðum.

Eruð þið með hugmyndir?

Frá falli Play fyrir rúmri viku hafa ekki aðeins 400 starfsmenn flugfélagsins misst starfið sitt, heldur hefur einnig verið tilkynnt um nokkrar hópuppsagnir til Vinnumálastofnunar. Ljóst er að gífurlegur fjöldi fólks stendur því frammi fyrir atvinnumissi, sem mögulega er að koma mjög flatt upp á marga.

Í dag ræðum við málin þó við Hilju á almennu nótunum. Fáum góðu ráðin og heyrum við hverju má búast og hvers er að varast.

Fyrstu ráðin sem Hilja leggur til er til stjórnenda í aðdraganda hópuppsagna.

„Ég myndi ráðleggja stjórnendum að koma heiðarlega fram við starfsfólk og viðurkenna að það sé búið að vera ströggl í gangi. Láta vita að það þeir vilji reyna sitt ítrasta til að koma í veg fyrir mögulegar uppsagnir og leita til starfsfólks sem sjái ef til vill aðrar lausnir í sjónmáli,“ segir Hilja og bætir við:

„Því rannsóknir eftir Covid hafa sýnt okkur að vinnustaðir geta verið fjárhagslega lengur að ná sér á strik eftir fjöldauppsagnir, í samanburði við það ef aðrar lausnir eru fundnar í samráði við starfsfólk.“

Hilja vísar þar í alls kyns leiðir sem vinnustaðir kynntust svo sem í Covid. Allt frá því að starfsmenn tækju á sig lækkun launa yfir í alls konar aðrar skipulagsbreytingar, lausnir eða leiðir.

„Ef þetta síðan gengur ekki, er ekkert annað hægt að gera en að láta vita að stjórnendur sjái sér ekki fært annað en að ráðast í uppsagnirnar. Aðalmálið hér er að starfsfólk upplifi það traust til stjórnenda að það hugsi: Ég veit þú gerðir allt sem þú gast.“

Í þessu samhengi segir Hilja traust til stjórnenda líka ná yfir það að fólk upplifi ákveðið jafnræði í því hvernig síðan er staðið að uppsögnunum sjálfum.

„Það skiptir miklu að starfsfólk upplifi ekki ójafnrétti gagnvart öðrum aðila í því ferli sem fjöldauppsagnirnar síðan fela í sér.“

Hilja segir eðlilegt að við viljum helst leysa öll mál. Hins vegar snúist stuðningurinn okkar við fólk sem hefur misst atvinnuna í því að hlusta án þess að leggja til lausnir. Stundum langi fólk til að fá útrás og ræða hlutina og stundum ekki.Vísir/RAX

Að hlusta en þegja

Hilja segir að í flestum tilfellum sé staðan reyndar sú að þegar til uppsagna kemur, hefur fólk meðvitað eða ómeðvitað verið undirbúið í svolítinn tíma.

Það breyti því þó ekki að í kjölfar atvinnumissisins, upplifir fólk alls kyns tilfinningar. Þar á meðal sorg.

„Þú varst kannski í starfi sem þú hélst að þú myndir starfa í lengi. En allt í einu er sú framtíðarsýn farin. Tilfinningarnar sem þú getur upplifað eru allt frá því að vera doði yfir í að hlæja, gráta, trúa ekki því sem gerðist og svo framvegis,“ segir Hilja og vísar þar til sorgarferlisins sem fólk fer oft í gegnum eftir atvinnumissi.

„Hér skiptir máli að vinir og vandamenn grípi til þess sem kallast grunnurinn að sálrænni fyrstu hjálp en það er að hlusta,“ segir Hilja og bætir við:

„Sem þýðir að við eigum að hlusta en ekki að bjóða upp á neinar lausnir.“

Hilja segir þetta þó oft gryfjuna sem fólk falli í.

Við viljum auðvitað öll leysa úr málum. 

Við viljum hjálpa. 

En í þessum tilfellum skiptir mestu máli að við hlustum og spyrjum:

 Hvað þarftu? og séum þannig að vanda okkur við að bjóða ekki fram lausnir heldur mæta þörfum.

Þegar við hlustum, er líka mikilvægt að búast við því að sá sem varð fyrir atvinnumissinum sé á mismunandi stöðum varðandi það að vilja tala.

„Fólk getur sagt við þig: Æi mig langaði bara að tala um þetta ….. Eða: Mig langar ekki til að tala meira um þetta,“ nefnir Hilja sem dæmi.

„Þannig að okkar er frekar að spyrja hvort viðkomandi vilji spjalla, en hlusta síðan á það sem viðkomandi segir, óháð því hvert svarið er.“

Miðað við tilfinningarússibanann sem fólk getur hins vegar farið í gegnum í kjölfar atvinnumissis er líka spurt: Erum við ekkert gjörn á að setja pressu á okkur um að vera búin að jafna okkur frekar fljótt?

„Jú, en það er ekki endilega bara pressa frá okkur sjálfum, heldur samfélaginu öllu,“ segir Hilja og bætir við:

„Fólk er oft hrætt við tilfinningarnar sem það er að upplifa í kjölfar atvinnumissis. En það skiptir samt svo miklu máli að leyfa þeim að koma fram því það að gera það, eykur líkurnar á að við náum að jafna okkur og komum betur út á endanum.“

Algeng mistök og góð ráð

Hilja nefnir nokkur algeng mistök vinnustaða.

„Það er ekki óalgengt að ráðstafanir séu gerðar til þess að styðja við bakið á því fólki sem missir vinnuna. Sem er mjög gott,“ segir Hilja en bendir á þá staðreynd sem vísað var til í upphafi viðtals: Stuðningurinn við fólkið sem situr eftir á vinnustaðnum er alveg jafn mikilvægur.

„Mjög miklu skiptir að stjórnendur fylgi uppsögnum eftir með réttum skrefum innan vinnustaðarins. Því fólkið sem situr eftir getur upplifað mikla vanlíðan í langan tíma, jafnvel sektarkennd yfir því að vera enn í starfi.“

Afleiðingarnar af þessu geta verið ýmis konar:

„Starfsánægja minnkar, helgun, afköst og traust gæti dalað,“ nefnir Hilja og tekur enn fleiri dæmi:

Fólk fer jafnvel að þreifa fyrir sér um annað starf og hugsar: 

Ég ætla að vera fyrri til…. 

Því traust til stjórnenda kann að vera skert .

En þetta er ekki allt:

„Í kjölfar uppsagna riðlast oft ákveðin hlutverk á vinnustaðnum, þau verða óskýr og jafnvel ekki aðlöguð að nýjum raunveruleika. Slíkt getur leitt af sér að verkefnaálag á þau sem eftir eru eykst, kvíði vegna óskýrra hlutverka eykst auk þeirra tilfinninga sem ég hef áður nefnt.“

Þá segir Hilja það líka geta verið dýrkeypt fyrir vinnustaði að fólk þurfi að vinna út uppsagnarfrestinn sinn.

„Ef fólk sem er sagt upp störfum upplifir reiði eða óánægju getur slíkt auðveldlega smitað út frá sér og haft neikvæð áhrif á samskipti og samvinnu, vinnustaðamenninguna, orðspor fyrirtækisins og fleira.“

En nú hafa ekki allir vinnustaðir efni á því að missa fólk frá sér án vinnuframlags þennan tíma sem uppsagnarfresturinn er?

„Nei það er rétt. En vinnustaðir þurfa þó að vega og meta þann kostnað í samanburði við mögulegan fórnarkostnað sem af því getur hlotist að fólk starfi áfram innan fyrirtækisins, eftir uppsögn.“

Hilja bendir fólki sem hefur nýlega misst vinnuna sína til að kanna hvað stéttarfélögin þeirra bjóði upp á. Oft sé mun meira í boði þar en fólk gerir sér grein fyrir. Til dæmis styrkir sem gefa tækifæri á alls kyns námskeiðum og fleira.Vísir/RAX

Aðspurð um enn fleiri góð ráð, nefnir Hilja sérstaklega stéttarfélögin.

„Stéttarfélögin bjóða mörg upp á aðstoð sem getur nýst fólki vel sem er nýbúið að missa starfið sitt. Oft jafnvel töluvert meira en fólk áttar sig á. Ég nefni dæmi um styrki til að fara á alls kyns námskeið, sem gæti gert viðkomandi mjög gott. Hvort sem það væri námskeið í grúski á gömlum bókum eða að hlaða steinum. Hvað viðheldur áhuga mínum? er góður útgangspunktur fyrir fólk að velta fyrir sér. Þannig að ég myndi hiklaust kanna hvað er í boði hjá stéttarfélaginu,“ segir Hilja.

Og klikkir síðan út með enn einu góðuráðinu fyrir okkur öll hin:

Það skiptir líka miklu máli að vinir og vandamenn hlúi vel að þeim sem hafa orðið fyrir atvinnumissi. 

Fólki finnst gott að heyra í gömlum og nýjum vinum því þegar vinnan er ekki lengur hluti af lífi okkar er jafnvel enn mikilvægara að eiga gott spjall og upplifa það áfram að við tilheyrum hópum, innan sem utan vinnunnar. 

Því í grunninn leitumst við alltaf við að tilheyra.“


Tengdar fréttir

Atvinnumissir: „Ég kunni nú ekki við að spyrja Jón beint“

„Fríin mín voru eins og hjá flestum. Kannski einhverjar tvær vikur í senn. Og þá hugsaði ég oft með mér: Hvað það væri nú frábært að geta verið í fríi í svona tvo mánuði á launum og geta gert það sem manni langar til,“ segir Jón Jósafat Björnsson, framkvæmdastjóri Dale Carnegie um tímabilið þegar hann varð atvinnulaus um árið.

Ekki of seint að breyta starfsframa eða vinnu eftir fimmtugt

Það er svo mikið talað um hversu erfitt það er fyrir fólk eftir fimmtugt að fá vinnu, að eflaust þora sumir á þessum aldri ekki einu sinni að hugsa þá hugsun til enda að segja upp í vinnunni sinni. Þótt fólk sé kannski orðið dauðþreytt á starfinu og dreymir alla daga um eitthvað annað.

Uppsagnir framundan: „Af hverju ég?“

Fólk sem lendir í uppsögnum fer í gegnum nokkur stig tilfinninga í kjölfarið. Allt frá afneitun yfir í reiði sem beinist að yfirmanninum og sorg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×