Innlent

Rann­saka hvort bíl­stjórinn hafi dottað

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Umferð var stýrt um veginn og framhjá bílnum á þriðjudagsmorgun vegna slyssins.
Umferð var stýrt um veginn og framhjá bílnum á þriðjudagsmorgun vegna slyssins. Vísir/Magnús Hlynur

Hvort vörubílstjóri Samskipa hafi dottað við akstur í gegnum Selfoss aðfaranótt þriðjudags er meðal þess sem lögregla hefur til skoðunar við rannsókn sína. Upplýsingafulltrúi Samskipa segir óhappið mjög slæmt en sem betur fer ekki algengt og verði tekið til skoðunar.

Óhappið varð á þriðjudagsmorgun milli klukkan fjögur og fimm. Þá var vörubíl ekið á grindverk fyrir framan Krónuna við Austurveg á Selfossi. Ekki urðu slys á fólki en milli fimmtán og tuttugu metra kafli af grindverkinu skemmdist. Tafir urðu á umferð um veginn í kjölfarið og stýrði lögregla þar umferð um morguninn.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu á Suðurlandi er óhappið til rannsóknar og eitt af því sem kemur til greina að bílstjórinn hafi dottað undir stýri. Ágústa Hrund Steinarsdóttir forstöðumaður markaðs- og samskiptadeildar Samskipa segir í samtali við Vísi að ekki sé vitað um tildrög slyssins á þessum tímapunkti.

„En þegar svona gerist eru virkjaðir verkferlar hjá okkur þar sem við skoðum allar aðstæður til hlýtar og vöndum til verka. Þetta slys er enn í rannsókn hjá okkur, það er mjög slæmt þegar svona gerist og þetta verður skoðað,“ segir Ágústa.

Hún segir að þakka megi miklu og góðu öryggisstarfi Samskipa að slík óhöpp séu afar sjaldgæf. „Við erum með mjög öflugt eftirlitskerfi og eigum í stöðugu samtali við bílstjóra um öryggismál. Þar skiptir fræðsla og góður búnaður öllu máli.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×