Innlent

Brott­hvarf Lax­ness: „Ekkert sem kemur í staðinn fyrir að vera einn í sínum heimi með bók“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Auður Jónsdóttir, rithöfundur og barnabarn Halldórs Laxness, syrgir brotthvarf bóka hans og annarra eldri rithöfunda úr menntaskólum fyrst og fremst sem lesandi. Bækur gefi hugmyndaflugi lesenda lausan tauminn.
Auður Jónsdóttir, rithöfundur og barnabarn Halldórs Laxness, syrgir brotthvarf bóka hans og annarra eldri rithöfunda úr menntaskólum fyrst og fremst sem lesandi. Bækur gefi hugmyndaflugi lesenda lausan tauminn. Vísir/Lýður Valberg

Rithöfundur og barnabarn Halldórs Laxness syrgir það að bækur hans séu á útleið úr menntaskólum. Hún veltir því fyrir sér hvort bókalestur megi ekki vera krefjandi, sérstaklega í ljósi þess að íslenskan sé á undanhaldi.

„Laxness hverfur úr skólum landsins“ er fyrirsögn á frétt sem birtist í Morgunblaðinu í morgun, þar sem fjallað er um að bækur Halldórs Laxness séu á hraðri útleið af leslistum framhaldsskóla. Í fréttinni er jafnframt fjallað um að sambærileg þróun eigi sér stað þegar kemur að lestri Íslendingasagna en lagt sé upp úr því að kynna nemendur fyrir Nóbelskáldinu í gegnum ljóð, brot úr verkum og styttri sögur.

„Er þetta bara hann eða hefur þetta líka að gera með það að við erum að lesa færri bækur og styttri bækur og atferli okkar er að breytast og auðvitað menningin,“ segir Auður Jónsdóttir, rithöfundur og blaðamaður og barnabarn Laxness. 

„Málið er að rýrna“

Auður segir það örugglega að ungmenni í dag hafi minni áhuga á bókum Laxness. Hann sé fjarlægur þeim en í dag eru 90 ár liðin síðan Sjálfstætt fólk, eitt hans þekktasta verk, var gefin út og 70 ár síðan hann hlaut Nóbelsverðlaun. Á sama tíma séu menntskælingar aldir upp með snjallsíma við hönd. Þá vanti upp á tungumálið og skilning milli kynslóða.

„Það eru alltaf fleiri og fleiri orð sem yngra fólk skilur ekki, sem eru hreinlega að detta úr málinu. Málið er að rýrna,“ segir Auður.

„Auðvitað er hann fjarlægur, hann er maður síðustu aldar en það er líka margt að breytast í okkar háttum og venjum. Sennilega á þetta líka við um fleiri höfunda, eins og Gunnar Gunnarsson, Þórberg og svo er líka talað um Íslendingasögurnar.“

Bækur megi vera krefjandi

Skrautlegar umræður sköpuðust við fréttadreifingu Morgunblaðsins á Facebook. Margir segja þetta á ábyrgð stjórnvalda og vanta upp á áherslu á að innflytjendur læri tungumálið. Aðrir benda á ábyrgð foreldranna og hvetja þá til að leggja frá sér símana og slökkva á Netflix á kvöldin. Víðar hafa umræður farið fram um málið, eins og rakið er í fréttinni hér að neðan. 

Umræða um rýrnun íslenskunnar hefur verið hávær síðustu misseri og segir Auður það glatað tækifæri að missa út þessi bókmenntaverk, sem eflt gætu íslenskukunnáttu nýrra kynslóða.

„Í bókum sem þessum erum við að vinna með sögu okkar og fortíð og hugarheim, þennan málheim, sem við fáum með móðurmjólkinni. Það eru rosalega miklar ógnir sem stafa að íslenskunni núna og þær koma úr ólíkum áttum,“ segir Auður. 

„Bókalestur er alveg tvímælalaust það sem hjálpar okkur við að hugsa á þessu máli og skilja heiminn, skapa og meðtaka. Bækur mega vera krefjandi. Mér finnst Harry Potter svo gott dæmi, ungir krakkar voru allt í einu farnir að lesa bækur á ensku af því að þeir gátu ekki beðið eftir íslensku þýðingunni. Þau geta miklu meira en við höldum.“

Gefur hugmyndafluginu lausan tauminn

Með styttingu bóka og stækkun hljóðbókamarkaðarins hafi ýmislegt breyst. 

„Bækurnar eiga að vera svo einfaldar, þær eiga að vera aðgengilegar. Það má ekkert liggja á milli línanna. Það kannski segir svolítið um það hvernig við hugsum skáldverk í dag. Það eru að verða allar þessar tæknibreytingar, fólk er mikið að hlusta á hljóðbók eða horfa á Netflix. Það er að meðtaka sögur með öðru móti,“ segir Auður. 

Lengi hefur Nóbelskáldinu verið haldið að ungum námsmönnum. Vísir/Lýður Valberg

„Það er ekkert sem kemur í staðin fyrir þetta að vera einn í sínum heimi með bók, þar sem þú ert eins og leikstjóri. Það ert þú sem útfærir það sem þú lest.“

Mikill sköpunarkraftur verði til við bókalestur, og nefnir Auður að margir verði fyrir vonbrigðum þegar þeir sjá bíómynd, sem byggð er á bók, af því að hún er allt öðru vísi en fólk hafði ímyndað sér. 

„Bók er alltaf til í jafn mörgum eintökum og lesendur hennar eru margir.“

Stafsetningin partur af galdrinum

Auður veltir því fyrir sér hvort málheimurinn sem birtist í gömlum bókum megi ekki reyna á nýja lesendur. Tólf skáldsögur eftir Laxness hafa nú verið gefnar út á nútímamáli.

„Það er búið að þýða stafsetninguna hans yfir í nútímamál - eins og okkur er tamt að tala. Ég skil alveg að þetta sé gert. Stafsetningin hans virðist eitthvað hræða frá,“ segir Auður og tekur fram að Halldór hafi gefið leyfi fyrir einni slíkri bók þegar hann var enn á lífi.

„En auðvitað er partur af galdrinum stafsetningin hans, þessi mússík sem kemur með henni og leiðinlegt ef það er erfiðara núorðið að miðla því. Í rauninni er hún ekkert erfið þegar maður byrjar að lesa hana. Hún rennur strax inn í kerfið.“

Salka Valka er ein þeirra bóka eftir Laxness sem gjarnan hefur verið lesin í framhaldsskólum.Vísir/Lýður Valberg

Heldurðu að skáldverkin hans séu of flókin fyrir þennan aldurshóp: Fimmtán, sextán, sautján ára? 

„Ég held það sé misjafnt, kannski Gerpla en ekki Barn náttúrunnar og ekki Salka Valka og ekki Heimsljós. Ég var mjög ung þegar ég las Barn náttúrunnar. Hann var náttúrulega bara sextán ára þegar hann skrifaði hana. Það er svolítið eins og unglingabók, það kæmi mér á óvart ef það er erfitt að lesa hana. Maður las hana eins og maður las Þjóð bjarnarins mikla eða Ísfólkið, svona um ástir ungs fólks.“

Syrgir breytinguna sem lesandi

Syrgir það þig að bækurnar hans séu á útleið úr menntaskólunum?

„Já, og nú tala ég bara fyrir mig, því ég las þessar bækur mjög mikið á þessum árum. Maður drakk þær í sig eins og annað sem var inni í bókaskáp. Ekki af því að hann var afi manns heldur maður byrjaði á einni og tók næstu. Ég man að það var svo mikil tilfinning sem maður fékk út úr þeim og þetta voru svo miklar sögur,“ segir Auður. 

Hún bendir líka á hvað maður þjálfast upp í að skrifa við að lesa mikið.

„Það gefur heilmikið en líka þessar sögur, þegar maður var ung manneskja, að lifa sig inn í Sölku Völku. Mér finnst þetta leitt fyrst og fremst sem lesanda, ég skal ekki segja aðdáanda en jú aðdáanda bóka hans. Sem ég var. Ég var mjög hrifin af þessum bókum þegar ég var ung.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×