Fótbolti

Glódís Perla kom inn í byrjunarliðið og Bayern vann toppslaginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir og félagar í Bayern München eru með þriggja stiga forskot á toppnum.
Glódís Perla Viggósdóttir og félagar í Bayern München eru með þriggja stiga forskot á toppnum. Getty/Pat Elmont -

Leikmenn kvennaliðs Bayern München fengu stóran skell í Meistaradeildinni í vikunni en svöruðu því með því að vinna toppslaginn í þýsku deildinni í dag.

Bayern München sótti þá þrjú stig á útivöll í uppgjör tveggja bestu liða þýsku deildarinnar.

Bæjarar unnu 3-1 sigur á Wolfsburg eftir að hafa komist í 1-0 í fyrri hálfleiknum.

Wolfsburg endaði manni færri eftir að liðið fékk rautt spjald í blálokin. Maria-Joelle Wedemeyer fékk að líta það í uppbótatíma.

Bayern hefur náð í sextán stig af átján mögulegum í deildinni og er eftir þennan góða sigur komið með þriggja stiga forskot á Wolfsburg sem er í öðru sætinu.

Bæjarar eru með fimm sigra og eitt jafntefli í sex leikjum og hafa enn ekki tapað. Markatalan er 16-1 en markið sem Wolfsburg skoraði í dag var það fyrsta sem Bayern fékk á sig í deildinni á leiktíðinni.

Glódís Perla Viggósdóttir var á varamannabekknum í stórtapinu á móti Barcelona en fyrirliðinn kom inn í byrjunarliðið í dag.

Klara Bühl kom Bayern í 1-0 á 27. mínútu en Wolfsburg jafnaði með sjálfsmarki Arianna Caruso eftir aðeins þriggja mínútna leik í seinni hálfleik.

Hin japanska Momoko Tanikawa kom Bayern aftur yfir á 57. mínútu og undir blálokin skoraði Alara Sehitler þriðja markið.

Glódís Perla fór af velli fyrir hina sænsku Magdalenu Eriksson á 66. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×