Fótbolti

Faðir Lamine Yamal sagður pressa á brott­för frá Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lamine Yamal með pabba sínum Mounir Nasraoui, mömmu sinni Sheila Ebana og yngri bróður sínum Keyne.
Lamine Yamal með pabba sínum Mounir Nasraoui, mömmu sinni Sheila Ebana og yngri bróður sínum Keyne. Getty/Mustafa Yalcin

Virtur franskur blaðamaður heldur því fram að Barcelona eigi á hættu að missa unga stórstjörnu liðsins, hinn frábæra Lamine Yamal. Strákurinn er enn bara átján ára gamall en stjarna hans hefur risið hátt síðustu ár.

Romain Molina er þekktur franskur blaðamaður sem er kunnur fyrir að afhjúpa hneykslismál í fótboltaheiminum. Hann heldur því fram að faðir Lamine Yamal sé að þrýsta á að strákurinn yfirgefi Barcelona.

Molina segir frá þeirri þróun að faðir Yamal sé að ná sífellt meiri áhrifum innan Barcelona. Hann er að nýta sér það að Lamine er orðinn einn besti fótboltamaður heims og ræður því miklu um framtíð Börsunga.

Allt þetta mál hefur haft neikvæð áhrif á liðsandann í Barcelona. Faðir Lamine er sagður hafa krafist þess að félagið setti son sinn framar Raphinha í baráttunni um hinn virta Gullknött en auk þess hefur hann komið með aðrar undarlegar beiðnir, svo sem að fá einkaþotur og önnur fríðindi, sem félagið hefur orðið við.

Nú virðist sem faðir Lamine Yamal sé að íhuga að færa sig yfir til Paris Saint-Germain. Svo virðist sem stjórn PSG hafi mikinn áhuga á að tryggja sér þjónustu Yamal fyrr en síðar. Eins og staðan er núna getur Barcelona varla keppt við tilboð PSG, í öllum þeim fjárhagsvandræðum sem spænska félagið er í.

Það er hætt við því að þessar sögusagnir muni elta strákinn og Börsunga næstu misserin.

Það er ekki bara faðir Lamine sem hagar sér undarlega. Móðir hans hefur verið að skipuleggja myndatökur þar sem fólk greiðir háar fjárhæðir fyrir að taka myndir með „móður besta leikmanns heims“.

Foreldrar Lamine Yamal eru því með alvöru stjörnustæla á meðan strákurinn þeirra heillar alla inni á vellinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×