Enski boltinn

Guéhi hafnaði samningstilboði frá Palace og fer næsta sumar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Marc Guéhi hefur verið lykilmaður hjá Crystal Palace undanfarin ár.
Marc Guéhi hefur verið lykilmaður hjá Crystal Palace undanfarin ár. getty/Lewis Storey

Marc Guéhi, fyrirliði Crystal Palace, ætlar ekki að framlengja samning sinn við félagið.

Oliver Glasner, knattspyrnustjóri Palace, greindi frá því að Guéhi ætli sér að yfirgefa Palace þegar samningur hans við félagið rennur út eftir tímabilið.

„Ég held að Marc hafi þegar tjáð okkur að hann muni ekki skrifa undir nýjan samning svo hann fer á næsta ári. Félagið vildi halda honum og buðu honum nýjan samning en hann sagði: Nei, ég vil gera eitthvað annað,“ sagði Glasner.

Flest benti til þess að Guéhi myndi ganga í raðir Englandsmeistara Liverpool í haust en félagaskiptin féllu upp fyrir á síðustu stundu.

Að öllu óbreyttu fer Guéhi frá Palace á frjálsri sölu næsta sumar, ekki nema félagið selji hann í janúarglugganum.

Guéhi hefur verið lykilmaður hjá Palace síðan hann kom til félagsins frá Chelsea fyrir fjórum árum. Hann varð bikarmeistari með Palace á síðasta tímabili.

Hinn 25 ára Guéhi er fastamaður í enska landsliðinu og hefur leikið 26 leiki fyrir það og skorað eitt mark.

Eftir að hafa verið taplaust í nítján leikjum í röð laut Palace í lægra haldi fyrir Everton, 2-1, í síðustu umferð ensku úrvalsdeildarinnar fyrir landsleikjahléið. Palace er með tólf stig í 6. sæti deildarinnar. Næsti leikur liðsins er gegn Bournemouth í dag.

Leikur Crystal Palace og Bournemouth hefst klukkan 14:00 og verður sýndur beint á Sýn Sport 3.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×