Veður

Stefnir í fyrstu hálku haustsins á höfuð­borgar­svæðinu

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Einar fór í Reykjavík síðdegis til að ræða veðrið.
Einar fór í Reykjavík síðdegis til að ræða veðrið. Bylgjan

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Bliku og Veðurvaktinni, varar íbúa höfuðborgarsvæðisins við að allt stefni í fyrstu hálku haustsins þar á morgun. Veturinn með sínu kalda lofti sé farinn að láta heyra aðeins í sér. 

„Ég kalla þetta að kalda loftið sé að læðast aftan að okkur, kemur ekki með neinum látum,“ segir Einar sem ræddi veðrið í Reykjavík síðdegis í dag.

Þó þurfi íbúar höfuðborgarsvæðisins ekki að búast við snjókomu strax þrátt fyrir að eins konar vetrarástand hafi skapast á Norðausturlandi, til að mynda við Mývatn.

„Það er víða orðið hvítt yfir og það er það sama fyrir vestan, nú fáum við líka snjó á Holtavörðuheiði og Brattabrekku sennilega í nótt eða fyrramálið. Þannig þetta er smám saman að færast í vetrarbúning.“

Einar segist óttast að hálkan láti bera á sér eftir nóttina, bæði á Hellis- og Mosfellsheiði.

„Við erum orðin svolítið hrædd um það að í nótt að þegar það styttir upp að það nái að frjósa og mynda ísingu. Við erum aðeins að fara yfir núna hvernig við eigum að meta þetta því ef þetta fer á versta veg þá er þetta fyrsta glæra haustsins.“

Þó eigi veður líkt og þetta ekki að koma á óvart heldur fari oftast að kólna í kringum 20. október. Þó að veður líkt og þetta komi ár hvert þarf samt að hafa varann á.

„Þeir sem þurfa að fara á milli, sérstaklega norðan og austan, snemma dags þurfa að hafa varann á sér og passa sig á hálkunni. Það er ekki hægt að hálkuverja alls staðar, þannig að það er sá tími að menn veðri að fara varlega.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×