Innlent

Maðurinn í lífs­hættu og til rann­sóknar hver veitti á­verkana

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frá Grindavík.
Frá Grindavík. Vísir/Vilhelm

Maður liggur nú á gjörgæslu með lífshættulega stunguáverka sem hann fékk um helgina í Grindavík. Lögregla taldi fyrst að hann hefði veitt sér áverkana sjálfur en rannsakar nú hvort um stunguárás hafi verið að ræða.

Ríkisútvarpið greindi fyrst frá þessu og hefur eftir Nönnu Lind Stefánsdóttur, aðstoðaryfirlögregluþjóni rannsóknardeildar lögreglunnar.

Í samtali við fréttastofu segir hún að ekki sé útilokað að maðurinn hafi orðið fyrir stunguárás. Hann hafi ekki verið einn í íbúðinni, en enginn hafi verið handtekinn.

Á laugardag birti lögreglan tilkynningu þar sem fram kom að brugðist hefði verið við tilkynningu um hávaða í íbúð í Grindavík. Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi komið í ljós að maður hefði veitt sjálfum sér stunguáverka. Því hafi lögregla kallað á sjúkralið til aðstoðar. Maðurinn hafi í kjölfarið verið fluttur á Landspítalann í Fossvogi til frekari aðhlynningar.

„Samkvæmt fyrstu upplýsingum sem lögregla fékk þegar málið kom upp var tilkynnt um stunguáverka. Við rannsókn málsins útilokum við ekkert, og þar með ekki að um stunguárás hafi verið að ræða. Rannsóknin beinist meðal annars að því,“ segir Nanna Lind.

Hún segist litlar aðrar upplýsingar geta veitt um framgang rannsóknarinnar eða líðan mannsins, fyrir utan þá staðreynd að hann sé í lífshættu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×