Handbolti

Orri fagnaði í Íslendingaslag í Meistara­deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Orri Freyr Þorkelsson var að venju í stóru hlutverki hjá Sporting.
Orri Freyr Þorkelsson var að venju í stóru hlutverki hjá Sporting. Getty/Andrzej Iwanczuk

Orri Freyr Þorkelsson og félagar hans í portúgalska félaginu Sporting sóttu sigur til Noregs í Meistaradeildinni í kvöld.

Sporting vann þá fjögurra marka sigur á Íslendingaliði Kolstad, 34-30.

Norska liðið átti flottan fyrri hálfleik og var 19-15 yfir í hálfleik en portúgalska liðið keyrði yfir þá í seinni hálfleik sem gestirnir unnu 19-11.

Sporting vann þarna sinn annan leik í röð í Meistaradeildinni og liðið hefur unnið fjóra af fyrstu sex.

Kolstad-menn töpuðu aftur sínum fjórða Meistaradeildarleik í röð en liðið hefur aðeins unnið einn af fyrstu sex leikjum sínum.

Orri Freyr skoraði fjögur mörk í leiknum en klikkaði á tveimur af þremur vítaskotum sínum. Ekki hans besti leikur en hann fagnaði sigri í leikslok með liðsfélögum sínum.

Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði tvö mörk fyrir Kolstad en þeir Sigvaldi Björn Guðjónsson og Arnór Snær Óskarsson náðu ekki að skora. Benedikt átti einnig þrjár stoðsendingar.

Sigvaldi átti afleitan dag og klikkaði á öllum fjórum skotum sínum í leiknum.

Sigurjón Guðmundsson kom inn í markið hjá Kolstad og varði tvo af fimm skotum eða 40 prósent skotanna sem hann reyndi við.

Simen Ulstad Lyse var í algjörum sérflokki hjá Kolstad með tólf mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×