Sport

Halda HM á hlaupa­bretti í fyrsta sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margir íþróttamenn þekkja það vel að æfa sig á hlaupabrettum en ekki keppa á þeim.
Margir íþróttamenn þekkja það vel að æfa sig á hlaupabrettum en ekki keppa á þeim. Getty

Ein nýjasta íþróttin sem fær sitt eigið heimsmeistaramót hefur líklega verið á verkefnalista flestra íþróttamanna á þeirra ferli.

Alþjóða frjálsíþróttasambandið og þjálfunarfyrirtækið Technogym tilkynntu í sameiningu á dögunum um nýtt heimsmeistaramót á hlaupabretti.

Nýja mótið var kynnt í Mílanó í viðurvist stofnanda og forstjóra Technogym, Nerio Alessandri, forseta Alþjóðaíþróttasambandsins, Sebastian Coe, og heimsmeistarans í tíu þúsund metra hlaupi, Jimmy Gressier.

Heimsmeistaramótið hefur fengið nafnið Run X en það verður haldið sem fimm kílómetra hlaupakeppni.

Mótið er opið öllum, frá atvinnumönnum til hreinræktaðra áhugamanna, og það endar með úrslitakeppni með tíu bestu körlunum og tíu bestu konunum.

Frá og með fyrsta ársfjórðungi 2026 munu líkamsræktar- og vellíðunarfélög um allan heim geta tengst og gengið til liðs við netið sem hýsir fyrsta heimsmeistaramótið í hlaupabrettum. Frá og með öðrum ársfjórðungi munu hlauparar geta skráð sig í keppnina sem haldin verður á fjórða ársfjórðungi 2026.

RUN X™ mun gefa meðlimum tækifæri til að keppa við atvinnuíþróttamenn í gegnum netstigatöflu sem sýnir rauntíma röðun þátttakenda um allan heim. Niðurstöður fimm kílómetra hlaupsins verða vottaðar í gegnum hlaupabretti sem tengjast Technogym-kerfinu.

Þátttakendurnir sem eru efstir í hverju landi, flokkaðir eftir aldurshópum, munu síðan komast áfram á svæðismeistaramót til að komast í heimsúrslit.

Heildarverðlaunapotturinn verður hundrað þúsund Bandaríkjadalir eða 12,3 milljónir króna. Sigurvegurunum verður líka boðið á heimsmeistaramótið í götuhlaupum.

Sebastian Coe, forseti Alþjóða frjálsíþróttasambandsins, segir að sambandið styðji viðburðinn, meðal annars vegna þess að þeir vilji opna íþróttina fyrir fleira fólki.

„Áskorunin hefur alltaf verið hvernig við getum gert íþróttina okkar aðgengilegri,“ sagði Coe, sem sjálfur er tvöfaldur Ólympíumeistari í 1500 metra hlaupi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×