Íslenski boltinn

Her­mann tekinn við Val

Valur Páll Eiríksson skrifar
Hermann Hreiðarsson er nýr þjálfari Vals.
Hermann Hreiðarsson er nýr þjálfari Vals. Mynd/Valur

Hermann Hreiðarsson hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs Vals í fótbolta. Hann skrifar undir þriggja ára samning.

Rætt verður við Hermann í Sportpakka kvöldsins á Sýn

Hermann kemur til Vals frá HK sem lék í Lengjudeildinni í sumar. Hann tekur við starfinu af Srdjan Tufegdzic sem var sagt upp störfum í upphafi vikunnar. Sögusagnir hafa verið á kreiki um hríð varðandi brottrekstur Túfa og sömuleiðis um að Hermann taki við starfinu.

Ásamt Túfa var þeim Hauki Páli Sigurðssyni, aðstoðarþjálfara, og Kjartani Sturlusyni, markmannsþjálfara, sagt upp og þurftu Valsmenn því að finna nýtt þjálfarateymi.

Fjölskylda Hermanns mætti að Hlíðarenda. Á myndinni eru Jóhann Lárus, Hermann sjálfur, Alexandra Fanney eiginkona hans, Thelma Lóa, Hermann Alex og Emil Max. Á myndina vantar elstu dóttur Hermanns, Ídu Marín.Mynd/Valur

Hermann mun leiða það teymi en með honum sem aðstoðarþjálfari verður Bretinn Chris Brazell. Þá er Gareth Owen nýlega tekinn við sem tæknilegur ráðgjafi knattspyrnudeildar félagsins. Enn á eftir að ráða nýjan markmannsþjálfara sem og styrktarþjálfara í teymi Vals.

Hermann þarf vart að kynna fyrir fótboltaunnendum landsins en hann er leikjahæsti Íslendingurinn í ensku úrvalsdeildinni. Hann lék fyrir Crystal Palace, Brentford, Wimbledon, Ipswich, Charlton, Portsmouth og Coventry á 16 ára atvinnumannaferli frá 1997 til 2012. Hann lék 89 landsleiki fyrir Ísland á árunum 1996 til 2011 og var í þrígang valinn knattspyrnumaður ársins hér á landi.

Hermann lauk leikmannaferlinum og hóf þjálfaraferil sinn sem spilandi þjálfari ÍBV sumarið 2013. Hann hefur síðan þjálfað bæði karla- og kvennalið Fylkis, verið aðstoðarþjálfari hjá Kerala Blasters á Indlandi og hjá Southend United á Englandi og þá stýrt Þrótti Vogum, ÍBV og síðast HK í Lengjudeildinni undanfarin tvö sumur.

Yfirlýsing Vals:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×