Enski boltinn

Segir allt tal um leiðin­legan fót­bolta hjá Arsenal heimsku­legt

Valur Páll Eiríksson og Ingvi Þór Sæmundsson skrifa
Liam Brady er ánægður með stöðu mála hjá Arsenal.
Liam Brady er ánægður með stöðu mála hjá Arsenal. vísir/bjarni

Arsenal-goðsögn er stödd hér á landi og hrífst mjög af leik liðsins þessi dægrin. Hann segir tal um neikvæðan fótbolta hjá liðinu vera hreinlega heimskulegt.

Liam Brady er goðsögn hjá Arsenal og er hér á landi á vegum Arsenal-klúbbsins. Hann lék á sínum tíma þrjú hundruð leiki fyrir félagið á árunum 1973 til 1980 og var yfirmaður unglingaliða félagsins í stjóratíð Arsene Wenger frá 1996 til 2013.

Brady sá leik Arsenal við Burnley á laugardag ásamt íslenskum stuðningsmönnum Skyttanna en Arsenal er eftir sigurinn með sjö stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.

Varnarleikur og mörk eftir föst leikatriði hafa verið einkennismerki Arsenal-liðsins sem fékk ekki á sig eitt einasta mark allan október og fylgdi því eftir með því að halda hreinu í sigri laugardagsins. 

„Ég held að Arsenal sé núna með lið sem jafnast á við hvað sem er á Englandi. Fyrir utan úrslitin gegn Liverpool, þar sem við töpuðum, 1-0, og undramark varð okkur að falli, höfum við spilað mjög vel og verðskuldum efsta sætið í deildinni,“ sagði Brady í kvöldfréttum Sýnar.

Hann segir Arsenal spila góðan varnarleik og liðið sé þétt fyrir.

„Við erum mjög sterkir í vörn með Gabriel og [William] Saliba sem miðverði. Það er næstum hægt að segja að þetta sé eins og í gamla daga hjá Arsenal, ef við náum marki þá vinnum við sennilega leikinn, 1-0 fyrir Arsenal,“ sagði Brady. Hann er þó ekki á því að Skytturnar spili varfærnislegan fótbolta.

„Það finnst mér ekki. Ef við lítum á tölfræðina í gær [í fyrradag] held ég að við höfum verið með boltann 75 prósent af leiktímanum. Ég held ekki að það sé neikvæður fótbolti þegar maður er svona mikið með boltann,“ sagði Brady.

„En við verjumst vel og allir leggja sig fram. Þegar við missum boltann leggja sig allir fram við að ná boltanum aftur. Okkur gengur mjög vel og ég myndi ekki kalla þetta neikvæðan fótbolta. Það væri heimskulegt.“

Fréttina frá því í gær má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. Hér fyrir neðan má svo horfa á viðtalið við Brady í heild sinni.

Klippa: Viðtal við Liam Brady



Fleiri fréttir

Sjá meira


×