Skoðun

Séreignarsparnaðarleiðin fest í sessi

Ingvar Þóroddsson skrifar

Í síðustu viku var stigið mikilvægt skref fyrir ungt fólk á húsnæðismarkaði. Ákveðið var að festa í sessi heimildina til að ráðstafa séreignarsparnaði inn á íbúðalán og við fyrstu kaup. Þetta er tímabært og skynsamlegt skref, og eitthvað sem Viðreisn hefur lengi talað fyrir.

Hingað til hefur þessi leið aðeins verið framlengd til eins árs í senn í tíð fyrri ríkisstjórna. Slíkt hefur valdið óvissu og gert ungu fólki erfitt fyrir að treysta á úrræðið þegar það skipuleggur fyrstu íbúðarkaup. Með því að gera leiðina varanlega er loksins tryggður fyrirsjáanleiki.

Fyrirsjáanleiki er lykilatriði í húsnæðismálum. Ungt fólk þarf að geta skipulagt sparnað, metið lánshæfi og tekið ákvarðanir byggðar á stöðugu umhverfi, ekki bráðabirgðaúrræði sem renna út árlega. Nú þegar úrræðið hefur verið gert varanlegt verður séreignarsparnaður að raunhæfu hjálpartæki til að komast inn á markaðinn og lækka greiðslubyrði.

Viðreisn hefur lengi lagt áherslu á að ungt fólk fái raunhæfan möguleika á að eignast eigið heimili. Þess vegna er jákvætt að þessi ákvörðun hafi verið tekin, og það undir forystu fjármálaráðherra Viðreisnar. Með þessu úrræði skapast meira svigrúm til að safna fyrir útborgun og greiða niður höfuðstól lána á skipulegan hátt.

Þetta getur skipt miklu fyrir þá sem eru á leigumarkaði. Há húsaleiga gerir mörgum erfitt fyrir að safna nægilega hratt. Með því að geta ráðstafað séreignarsparnaði inn á lán eða inn í fyrstu kaup verður auðveldara að stíga þetta mikilvæga skref. Fyrir marga er þetta munurinn á því að vera fastur á dýrum og ótryggum leigumarkaði eða að komast inn í eigið húsnæði.

Auðvitað er þetta úrræði eitt og sér engin töfralausn á húsnæðisvandanum í heild. Við þurfum áfram að vinna að auknu framboði og bættum lánskjörum. Slíkar lausnir voru einmitt boðaðar í húsnæðispakka ríkisstjórnarinnar í seinustu viku og fleiri aðgerðir eru væntanlegar á næsta ári.

Að festa séreignarsparnaðarleiðina í sessi er þó mikilvægt skref sem ég fagna sérstaklega enda styður hún sérstaklega ungt fólk í að taka fyrstu skrefin inn á húsnæðismarkað.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar.




Skoðun

Sjá meira


×