Enski boltinn

Spilaði meira en síðustu tvo mánuði til samans

Valur Páll Eiríksson skrifar
Stefán Teitur spilaði 40 mínútur af fótbolta í kvöld, sem heyrir til frétta.
Stefán Teitur spilaði 40 mínútur af fótbolta í kvöld, sem heyrir til frétta. Bradley Collyer/PA Images via Getty Images

Íslenski landsliðsmaðurinn Stefán Teitur Þórðarson spilaði rúmar 40 mínútur í 2-1 sigri Preston North End á Swansea City í ensku B-deildinni í fótbolta í kvöld. Hann hefur ekki spilað svo mikið í einum og sama leiknum síðan í ágúst.

Stefán Teitur var sem fyrr á varamannabekk Preston en hann hefur verið úti í kuldanum í vetur. Hann kom þó inn sem varamaður í síðustu tveimur leikjum en spilaði um 10 mínútur í þeim báðum.

Vinstri bakvörðurinn Thierry Small kom Preston í forystu eftir aðeins átta mínútna leik og 1-0 stóð í hléi PNE í vil. Aðeins fjórar mínútur voru liðnar af síðari hálfleik þegar framherjinn Milutin Osmajic tvöfaldaði forystuna.

Stefán Teitur kom inn sem varamaður fimm mínútum eftir markið, á 54. Mínútu, og hefur hann ekki spilað svo margar mínútur fyrir Preston síðan í lok ágúst. Raunar hefur hann alls spilað 28 mínútur allan október og september.

Suður-Kóreumaðurinn Eom Ji-sung kom inn af bekk Swansea í síðari hálfleik og minnkaði muninn seint í leiknum. Við tóku spennandi lokamínútur en Preston hélt út og vann 2-1 sigur.

Um er að ræða þriðja leikinn í röð sem Preston vinnur og hefur Stefán Teitur tekið þátt í þeim öllum, eftir að hafa setið fjóra leiki í röð þar á undan á bekknum.

Preston situr í fjórða sæti deildarinnar með 25 stig, sex frá toppliði Coventry en aðeins tveimur frá Stoke City sem er í öðru sæti og stigi á eftir Middlesbrough í því þriðja.

Swansea er í 17. sæti með 17 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×