Enski boltinn

Fótboltaleikur í beinni á TikTok í fyrsta sinn

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Samfélagsmiðlar spila stórt hlutverk í að auka vinsældir íþrótta og nú fer fótboltinn á Englandi nýjar leiðir.
Samfélagsmiðlar spila stórt hlutverk í að auka vinsældir íþrótta og nú fer fótboltinn á Englandi nýjar leiðir. Lee Parker - CameraSport via Getty Images

Á laugardaginn verður fótboltaleikur sýndur í beinni útsendingu á samfélagsmiðlinum TikTok í fyrsta sinn, gjaldfrjálst. Streymisveitan DAZN stendur fyrir útsendingunni, frá leik Carlisle United og Southend United í National deildinni, fimmtu efstu deild Englands.

DAZN hefur áður verið með boxbardaga í beinni útsendingu á samfélagsmiðlum, sem og leiki í Infinity deildinni í Þýskalandi þar sem er spilaður fimm manna fótbolti.

Þetta verður hins vegar í fyrsta sinn sem alvöru keppnisleikur er sýndur, með ellefu leikmönnum í hvoru liði og milli tveggja alvöru stórvelda í neðri deildunum á Englandi.

„Þetta samstarf með TikTok er mikilvægt fyrir DAZN og National deildina. Við erum í stöðugri vinnu við að stækka íþrótta, auka áhorfendafjöldann og ná til breiðari markhóps.

DAZN er að gera fótboltann aðgengilegri og skapa tækifæri fyrir félög til að þrífast á samfélagsmiðlaöldinni“ segir í yfirlýsingu DAZN.

Yfirmaður íþróttamála hjá TikTok segir fótbolta vera vinsælustu íþróttagreinina á miðlinum og lýsti þessu sem stóru skrefi í átt að því gera íþróttina aðgengilegri. Þar að auki sé mikilvægt að hlúa að neðri deildunum og gefa þeim tækifæri til að sýna sig.

DAZN var stofnað í Lundúnum árið 2016 og hefur opinberlega stefnt að því að verða stærsta streymisveita heims í íþróttum.

Fyrirtækið hefur eytt háum fjárhæðum í að tryggja sér streymisrétti og tapað miklum peningum en notið góðs stuðnings frá fjárfestingasjóði í Sádi-Arabíu.

Streymisrétturinn að National deildinni er langt frá því að vera stór samningur fyrir DAZN, sem sýndi til dæmis HM félagsliða frítt í sumar, en talið er að mikil tækifæri felist í því að sýna frá National deildinni á samfélagsmiðlum DAZN.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×