Skoðun

Ríkislögreglustjóri verður að víkja

Einar Steingrímsson skrifar

Í svari ríkislögreglustjóra þann 5. nóvember, við beiðni dómsmálaráðherra um upplýsingar vegna furðulegra kaupa á „ráðgjöf“ fyrir á annað hundrað milljónir, segir eftirfarandi:

„Embætti ríkislögreglustjóra tekur mjög alvarlega þá annmarka sem hafa komið fram um kaup stofnunarinnar á ráðgjöf og þjónustu utanaðkomandi sérfræðinga eða ráðgjafa og greiðslna til verktaka.

Við höfum unnið að ítarlegum verklagsreglum um innkaup og samningagerð sem ætlað er að tryggja fullt gagnsæi og samræmi við lög um opinber innkaup. Drög að þessum reglum fylgja hér með til upplýsingar.

Auk þess hefur verið settur á fót starfshópur innan embættisins með fulltrúa innkaupastjóra, fjármálastjóra og yfirlögfræðings til að fullvinna og innleiða framangreindar verklagsreglur fyrir 30. nóvember nk.“

Hér fer Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri mildum orðum um eigið framferði, þar sem alvarleg brot eru bara "annmarkar". Maður veltir einnig fyrir sér hvað henni fannst áður fyrr um það gagnsæi sem ætti að ríkja í störfum hennar. Ekki síður áhugavert er að það sé fyrst nú sem henni finnst ástæða til að „tryggja“ að hún hagi sér í „samræmi við lög“.

Ekki virðist ástæða til að efast um að það sem Sigríður nefnir í bréfinu sé nauðsynlegt, í ljósi framferðis hennar í umræddu máli. Hins vegar er full ástæða til að efast um að hinni seku, ríkislögreglustjóranum sjálfum, sé treystandi til að laga þessa bresti. Annars vegar er það jú hún sem braut svona alvarlega af sér, og hins vegar á hún að baki langan brotaferil í starfi, eins og rakið var hér, sem gerir hana ekki traustvekjandi umbótamanneskju.

Síðast en ekki síst er orðið ljóst að Sigríður Björk er gersamlega rúin því trausti almennings sem nauðsynlegt er að æðsti yfirmaður lögreglu í landinu hafi, enda óviðunandi að í því embætti sitji manneskja sem sjálf er sífellt að brjóta lög.

Ef friður á að skapast um störf lögreglu, og ef almenningur á að geta treyst æðsta yfirmanni hennar, þá verður Sigríður Björk að víkja.

Höfundur er stærðfræðingur.




Skoðun

Skoðun

3003

Elliði Vignisson skrifar

Sjá meira


×