Tíska og hönnun

Þau hlutu Hönnunar­verð­laun Ís­lands

Atli Ísleifsson skrifar
Fjallahjólið Elja, framleitt af Lauf Cycles hlaut verðlaun sem Vara ársins.
Fjallahjólið Elja, framleitt af Lauf Cycles hlaut verðlaun sem Vara ársins. Sunna Ben

Hönnunarverðlaun Íslands 2025 voru afhent við hátíðlega athufn í Grósku i gærkvöldi.

Fjallahjólið Elja er Vara ársins, Elliðaárstöð er Staður ársins og Fischersund Verk ársins. Þá hlaut Albína Thordarson arkitekt Heiðursverðlaun og Náttúruverndarstofnun viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun. 

Í tilkynningu frá Hönnunarmiðstöð segir að Elja, sem hlaut verðlaun sem vara ársins, sé fjallahjól hannað og framleitt af Lauf Cycles. 

„Elja er fulldempað fjallahjól sem sameinar með einstökum hætti eiginleika fjalla-, keppnis- og borgarhjóls. Í hjólinu sameinast yfirburðahönnun, tæknileg úrvinnsla, notendavæn hugsun og ábyrg framleiðsla.Tæknin gerir upplifun hjólreiðamanna við utanvega hjólreiðar einstaka og eykur möguleika til vistvænna samgangna allan ársins hring. Hjólið hefur sérstöðu á alþjóðamarkaði hvað búnað og tækni snertir en á sama tíma er hvergi gefið eftir í hönnun útlits og ytra byrði.

Elliðastöð hlaut verðlaun sem Staður ársins. Sunna Ben

Elliðaárstöð - Staður ársins 2025

Elliðaárstöð er nýr áfangastaður í Elliðaárdal, hönnuð af Tertu þverfaglegu hönnunarteymi í samstarfi við Landslag. Einstaklega vel hefur tekist að virkja svæðið og glæða það lífi en um leið fræða gesti og halda í menningarsöguleg verðmæti. Þar sem áður var iðnaðarsvæði er nú heimili fjölbreyttrar dagskrár á sviði menningar, menntunar, nýsköpunar, lista og íþrótta. Ekki síður er svæðið hannað fyrir frjálsan leik, samveru og næði. Tekist hefur að skapa nærandi stað sem fyllir gesti gleði og orku.

Fulltrúar Fischersunds sem hlutu verðlaun fyrir verk ársins. Sunna Ben

Fischersund - Verk ársins 2025

Fischersund talar til allra skilningarvita í gegnum ilm, tónlist og myndlist. Frá stofnun Fischersunds hefur skynheimurinn stækkað og styrkst um leið og verkum og vörum hefur fjölgað. Fischersund er heildstætt og lifandi verk sem sameinar ólíka miðla til að skapa ásýnd og vörur. Með þessari nálgun hafa þau skapað farveg fyrir hönnun og list sem samofin ferli, þar sem skynjunin sjálf er efniviðurinn og upplifunin endanlega afurð.

Albína Thordarson arkitekt hlaut heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands 2025.Sunna Ben

Albína Thordarson arkitekt - Heiðursverðlaunahafi 2025

Albína Thordarson arkitekt hlýtur heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands 2025 fyrir framlag sitt til byggingarlistar en hún hefur tryggt sér sess sem einn fremsti arkitekt Íslendinga. Verk Albínu einkennast af fagurfræði þar sem fólk og umhverfi er útgangspunktur í því að skapa tímalaus rými og byggingar. Rótgróin tengsl við byggingarlistina ásamt fagmennsku, framsýni og elju hafa gert Albínu að fyrirmynd og áhrifakonu í íslenskri arkitektasögu, en Albína var ein af fyrstu konunum á Íslandi til að starfrækja eigin arkitektastofu. Hún er mikilvægur brautryðjandi kvenna í faginu og höfundur fjölda verka sem enn móta umhverfi okkar og samfélag og hefur með störfum sínum rutt brautina fyrir nýjar kynslóðir arkitekta. Ævistarf Albínu Thordarson er merkilegur vitnisburður um gildi arkitektúrs sem þjónar fólki, samfélagi og menningu til framtíðar.

Fulltrúar Náttúruverndarstofnunar. Sunna Ben

Náttúruverndarstofnun verðlaunuð fyrir bestu fjárfestingu í hönnun 2025

Náttúruverndarstofnun hlýtur viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun á Hönnunarverðlaunum Íslands 2025 fyrir framúrskarandi nálgun við uppbyggingu gestastofa með hönnun og arkitektúr að leiðarljósi.“

Rætt var við Höllu Helgadóttur, framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs og Benedikt Skúlason, framkvæmdastjóra Lauf Cycles, í beinni útsendingu í kvöldfréttum Sýnar í gærkvöldi. Benedikt var þá nýkominn af sviði þar sem hann tók við verðlaunum fyrir vöru ársins. Hann átti ekki von á því að hljóta verðlaunin eins og sjá má í spilaranum að neðan. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.