Innlent

Meti kostnað og á­byrgð annarra á að greiða varnar­garða

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra vill að kostnaður vegna varnargarðanna verði metinn og möguleg ábyrgð aðila líkt og Bláa lónsins á að borga hluta af kostnaðinum.
Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra vill að kostnaður vegna varnargarðanna verði metinn og möguleg ábyrgð aðila líkt og Bláa lónsins á að borga hluta af kostnaðinum. Vísir

Eðlilegt þykir í ljósi kostnaðar af gerð varnargarða á Reykjanesi að skoða hvort rétt sé að þeir sem eigi hagsmuna að gæta á svæðinu beri hluta af kostnaði ríkissjóðs vegna aðgerðanna. Fjármálaráðherra hefur af þeim sökum farið þess á leit að dómkvaddir verði matsmenn til að meta kostnað ríkissjóðs af aðgerðunum á Reykjanesskaga.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef stjórnarráðsins. Þar er tekið fram að engin ákvörðun hafi verið tekin um að höfða mál gegn þeim aðilum sem matsbeiðnin beinist gegn.

Aðgerðir hafi meðal annars miðað við að gæta hagsmuna aðila á borð við HS Orku hf., HS Veitna hf., Bláa Lónsins Ísland ehf., Eldvarpa ehf., Hraunseturs ehf., Íslenskra Heilsulinda ehf. og Bláa lónsins hf. Tekið er fram í tilkynningu fjármálaráðuneytisins að þessir aðilar hafi átt og eigo enn, vegna aðgerðanna sem í var ráðist, afar verðmætar eignir og lausafé við Svartsgengi, og/eða verulega rekstrarhagsmuni tengda slíkum eignum.

Aðgerðir ríkisins hafi einkum falist í gerð varnargarða við Grindavík og Svartsengi, hraunkælingu og vörnum við hitaveitulagnir. Þær hafi heppnast vel.

„En ríkissjóður lagði til verulega fjármuni vegna framkvæmdanna og er heildarkostnaðurinn orðinn rúmlega 11 milljarðar króna. Eðlilegt þykir í ljósi þessa umfangs að skoða hvort rétt sé að þeir aðilar sem tryggt hafa hagsmuni á því svæði sem eldgosahrinan náði til eigi að bera hluta af kostnaði ríkissjóðs vegna þessara aðgerða.“

Þá telji ríkissjóður sig einnig eiga kröfur á hendur Náttúruhamfaratryggingu Íslands sem vátryggjanda stórs hluta fasteigna í Grindavík og við Svartsengi. Dómkvöddum matsmönnum sé ætlað að meta sjálfstætt þau atriði sem matsbeiðni ríkissjóðs lýtur að, þar á meðal kostnað af aðgerðum sem ráðist var í til að koma í veg fyrir eða draga úr hættunni á tjóni af völdum eldsumbrotanna á Reykjanesskaga á árunum 2023-2024.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×